Runólfur Ágústsson verkefnastjóri birti eftirfarandi hugleiðingu á fésbókinni:
Ég hef verið að velta fyrir mér svokölluðum 3. orkupakka ESB og innleiðingu hans hérlendis sem margir hafa sterkar skoðanir á. Þar vil ég leggja eftirfarandi atriði inn í umræðuna.
1. Ég er alþjóðasinni og eindregið fylgjandi frjálsum viðskiptum. Þrátt fyrir það tel ég að við sem þjóð eigum að byggja framtíð okkar upp sem sjálfbært umhverfisvænt samfélag og að ef alþjóðaviðskipti með innlenda hreina orku takmarka þá framtíðarsýn, eigum við að hafa varann á og láta samfélags- og umhverfissjónarmið ráða.
2. Ódýr, hrein og umhverfisvæn orka er og verður í framtíðinni einn helsti styrkleiki okkar samfélags. Íslensk fyrirtæki geta markaðsett sínar vörur sem grænar og umhverfisvænar á þeim grundvelli.
3. Orkufyrirtækin eru að langmestu leyti opinber fyrirtæki í eigu almennings. Því eiga samfélagsleg sjónarmið að ráða rekstri þeirra en ekki hámörkun arðs. Þessi fyrirtæki eru stofnuð til að skaffa almenningi ódýra orku.
4. Íslensk orka er verðmæt vara. Við eigum ekki að flytja hana út um sæstreng eins og hverja aðra hrávöru, heldur að nýta hana til vistvænnar grænnar uppbyggingu innanlands. Ódýr raforka á Íslandi er auðlind sem við eigum sem samfélag ekki að selja frá okkur.
5. Sæstrengur til Evrópu myndi markaðsvæða innlendan orkumarkað miðað við orkuverð í Evrópu og margfalda verð á rafmagni til almennings og innlendra fyrirtækja.
6. Landsvirkjun hefur í mörg ár talað fyrir lagningu sæstrengs og bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur selja nú ímyndi okkar og hreinleika með svokölluðum upprunavottorðum til evrópskra orkufyrirtækja sem búa til rafmagn úr kolum og kjarnorku svo þau geti logið til um orkunotkun sína. Ég veit mæta vel að þetta kerfi mun í heild virka til minnkandi losunar CO2 í Evrópu, en hér erum við fyrir 30 silfurpeninga (nokkur hundruð milljónir), að selja ímynd og hreinleika okkar samfélags sem við gætum ákveðið að gera ekki og byggja þess í stað upp ímynd okkar á þessu sviði.
7. Hér er því spurningin sú hvort heildarhagsmunir losunar í Evrópu eiga að ráða eða samfélagshagsmunir okkar af því að nýta græna orku til uppbyggingar á samfélagi og atvinnulífi.
Mér sýnist að ef umrædd ESB löggjöf verði innleidd verði hægt án aðkomu Alþingis að taka ákvörðun um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Evrópu með einfaldri stjórnsýsluákvörðun. Leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt. Ef að þetta er raunin er ég á móti þessari löggjöf, ef ekki þá er ég henni fylgjandi.
ps.
Hér er hlekkur á lögfræðilega greinargerð sem unnin var fyrir ríkisstjórnina um málið.