„Þingsályktun sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi tryggir yfirráð íslensku þjóðarinnar yfir orkuauðlindum landsins og er því í samræmi við ályktun miðstjórnar Framsóknar frá því síðla árs 2018,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra.
Hann segir að þriðji orkupakkinn verði innleiddur hér á landi með lagalegum fyrirvara um að Ísland innleiði ekki það regluverk sem snýr að raforkustrengjum milli landa, enda hafi Ísland enga tengingu við orkumarkað annarra Evrópuríkja og Framsóknarflokkurinn telji slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna – eins og samþykkt var af miðstjórn Framsóknar.
„Þar með er ljóst að úrskurðarvald í orkumálum færist ekki frá íslenskum stjórnvöldum til yfirþjóðlegrar stofnunar. Því til viðbótar hefur ríkisstjórnin ákveðið að taka Ísland af lista yfir hugsanlega rafmagnssæstrengi milli landa Evrópu. Þá mun iðnaðarráðherra leggja fram frumvarp í næstu viku um að raforkustrengur milli Íslands og annarra landa verður ekki lagður án samþykkis Alþingis,“ segir Sigurður Ingi í færslu á fésbókinni nú síðdegis.