Ótrúlegt frumhlaup Veðurstofunnar

Það er einstakt í Íslandssögunni að heilt bæjarfélag hafi verið rýmt með litlum fyrirvara og verðir standi nú við lokunarpósta og gæti þess að hleypa engum inn, enda verulegar líkur á öflugu eldgosi í eða við Grindavík. Fjölmargir Grindvíkingar fóru í flýti á brott, jafnvel án gæludýra sinna, og velta eðlilega fyrir sér hvenær eða hvort færi gefst á að bjarga því sem bjargað verður áður en hamfarirnar dynja yfir.

Í ljósi þessa verður að teljast alveg ótrúlegt frumhlaup hjá Veðurstofunni að hafa sent út tilkynningu í morgun á fjölmiðla þar sem tilkynnt var „sam­eig­in­legt mat stöðufund­ar Veður­stof­unn­ar, Al­manna­varna og sér­fræðinga Há­skóla Íslands er að íbú­ar Grinda­vík­ur megi sækja nauðsynj­ar.“

Í til­kynn­ing­unni sagði ennfremur að það væri sam­eig­in­legt mat „fund­ar­ins út frá nýj­ustu gögn­um“ að svig­rúm sé til tíma­bund­inna aðgerða á veg­um al­manna­varna til að sækja nauðsynj­ar fyr­ir íbúa og sinna brýn­um er­ind­um í Grinda­vík og ná­grenni.

Grindvíkingar brugðust eðlilegt skjótt við og fjölmenntu á svæðið, ásamt skyldmönnum og vinum á stórum bílum, til að bjarga verðmætum. En það reyndist vera fýluferð á kostnað fólks sem alls ekki má við slíku á þessum tímapunkti, eins og allir hljóta að skilja.

Eftir hádegi kom tilkynning frá Almannavörnum um að íbúum í Þór­kötlustaðahverfi í Grinda­vík væri ein­ung­is heim­ilt að sækja gælu­dýr og ómiss­andi eig­ur sínar. Um væri að ræða „skipu­lagða og stýrða aðgerð und­ir stjórn lög­regl­unn­ar. Heim­ild­in nær ein­göngu til þessa til­tekna hverf­is, ekki annarra hverfa eða svæða í Grinda­vík, en auk þess væri sér­stök aðgerð í gangi til þess að sækja alla hesta í hesta­hverf­inu norðan við Aust­ur­ver.

„Við ít­rek­um við aðra íbúa að keyra alls EKKI í átt að Grinda­vík og ekki safn­ast sam­an á lok­un­ar­póst­um. Íbúar í Þór­kötlustaðahverfi sem fá að fara inn til Grinda­vík­ur fara ekki þangað á eig­in bíl­um. Íbúar sem fá að fara inn í til Grinda­vík­ur eiga að koma á söfn­un­arstaðinn sem er bíla­stæðið við gossvæðið, við Fagra­dals­fjall,“ sagði í til­kynn­ing­unni og lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði þungbrýnn í beinni útsendingu í sjónvarpinu að tilkynning Veðurstofunnar hefði verið „óheppileg“ og tilkynningar eða ákvarðanir af þessu tagi gætu einungis komið frá Almannavörnum, ekki öðrum.

Á válegum tímum sem þessum er mikilvægara en nokkru sinni að aðgerðir yfirvalda séu samræmdar og skilaboð skýr. Að Veðurstofan skuli hafa tekið að sér að bjóða skelkuðum Grindvíkingum aftur heim til að sækja verðmæti og annað með tilfinningalegt gildi, án þess að innistæða hafi verið fyrir því, er frumhlaup af alvarlegu tagi og vonandi eitthvað sem ekki endurtekur sig.

Það má enginn tala í nafni Almannavarna nema Almannavarnir sjálfar. Það ætti raunar alls ekki að þurfa að taka sérstaklega fram.