„Að veita ríkisborgararétt er stórmál, stórmál fyrir þann sem veitir hann og stórmál fyrir þá sem fá ríkisborgararétt á Íslandi,“ sagði Jón Gunnarsson, fv. dómsmálaráðherra á Alþingi í dag er hann benti á að nú líði að þeim tíma að umsóknir sem berast til Alþingis um ríkisborgararétt verði teknar til umfjöllunar og afgreiddar.
„Við höfum áður tekist á um það hér í þingsal og þá hafa verið deildar meiningar um hvernig eigi að vinna með slíkar umsóknir og þetta kerfi verið gagnrýnt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið taki þetta til skoðunar og að sá leyndarhjúpur sem yfir þessu hvílir og þetta ferli verði skoðað í ljósi gagnsæis og hæfisreglna. Ég tel til að mynda alveg ómögulegt að það séu einhverjir þrír þingmenn í undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar sem sjá um að fara yfir þessar umsóknir, leggi á þær mat, taki á móti upplýsingum sem berast m.a. frá Útlendingastofnun og lögreglu og síðan komi tillaga inn til þingsins en þingmenn hafi engin tök á að kynna sér þær umsóknir, taki enga umræðu um það af hverju verið er að hafna ákveðnum umsóknum, af hverju verið er að samþykkja ákveðnar umsóknir,“ sagði hann.
Jón benti á að komið hafi fram gagnrýni á það að hæfisreglum hafi jafnvel ekki verið fylgt í þessu ferli í einhverjum tilfellum. Fólk hafi verið að fjalla um umsóknir hjá einstaklingum sem það þekkir og hafi jafnvel starfað fyrir.
„Þetta held ég að gangi ekki upp og ég mun kalla eftir því, að við þingmenn fáum aðgang að öllum þessum upplýsingum. Það getur varla talist neitt annað réttlætanlegt í þessu en að þingmenn séu upplýstir um það hvaða ákvarðanir þeir eru að taka í þessu mikilvæga máli,“ bætti Jón við.