Framlög til öryrkja lækkuð milli umræðna vegna vaxandi verðbólgu og gengishruns

Meirihluti fjárlaganefndar hyggst leggja fram tillögur fyrir aðra umræðu fjárlaga á fimmtudag sem ganga út á að vinna gegn kólnandi hagkerfi, hækkandi verðbólgu og gengishruni krónunnar. Stærsta skellinn eiga öryrkjar að taka, því framlög til þeirra eiga að lækka um ellefu hundruð milljónir króna frá því sem áður hafði verið kynnt.

Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar sagði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að veikari króna og minni einkaneyslu hafi mikil áhrif. Hægja á einnig á framkvæmdum við nýjan Landspítala og nýja skrifstofubyggingu fyrir Alþingi.

„Verðbólgan er að láta á sér kræla og það er stór hluti frumvarpsins sem er í launum og verðbótum og það þarf að taka tillit til þess sem hefur áhrif á fjölmargar stærðir og svo þarf að gera almennar ráðstafanir til að mæta þeim útgjaldaauka,“ sagði Willum Þór.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, sagðist ekki muna til þess að framlög til velferðarmála væru lækkuð með þessum hætti milli umræðna.

Uppfært kl. 08:11, 14. nóv 2018: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt til að hnykkja á að verið er að lækka framlög til öryrkja frá því sem áður hafði verið boðað í fjárlagafrumvarpinu, en það felur þó enn í sér aukin útgjöld til málaflokksins frá fyrra ári. Ritstj.