Sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna kallaði skýrt eftir mannúðarhléi til að tryggja tafarlausa mannúðaraðstoð til óbreyttra borgara á Gaza á neyðarfundi í gærkvöldi.
Þetta segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. Hann svarar á samskiptamiðlum fyrir þá ákvörðun sendinefndar Íslands að greiða ekki atkvæði með tillögu Jórdaníu:
„Á fundinum lagði Jórdanía fram ályktun um ástandið á svæðinu fyrir hönd ríkja Arabahópsins, en ályktunin var ekki bindandi. Ísland studdi ályktunina að því gefnu að breytingartillaga Kanada yrði samþykkt, þar sem hryðjuverk Hamas yrðu jafnframt fordæmd.
Samstaða náðist ekki um það á þinginu og sat Ísland því hjá ásamt á fimmta tug ríkja, þar á meðal Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum.
Það er miður að ekki hafi náðst samstaða á þinginu um að fordæma hryðjuverk.
Þetta breytir þó ekki skýrri afstöðu Íslands um tafarlaust mannúðarhlé, að komið verði á friði og byggt á tveggja ríkja lausninni. Ísland gerir skýra kröfu til Ísraels um að farið sé að mannúðarlögum.
Fyrir þessu verður áfram talað af fullum þunga. Hvert dauðsfall meðal almennra borgara er einu dauðsfalli of mikið,“ segir utanríkisráðherra.