Talað fyrir „séríslenskum“ leiðum í hundrað ár með „séríslenskum“ árangri

„Í 100 ár hefur stjórnmálafólk á Íslandi talað fyrir séríslenskum leiðum sem hafa haft í för með sér séríslenska niðurstöðu. Dæmi um þetta má sjá núna þegar stýrivextir eru 9,25% og verðbólga 8-9%. Allt tal um smæð okkar sem útskýring á stöðunni heldur engu vatni,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og fv. bæjarstjóri í Bolungarvík og sveitarstjóri í Dalabyggð.

Grímur er eiginmaður Helgu Völu Helgadóttur sem hætti óvænt þingmennsku fyrir Samfylkinguna á dögunum og gerðist lögmaður að nýju. Hann skýtur á Samfylkinguna í færslu sinni á fésbókinni og veltir fyrir sér stefnubreytingu flokksins í Evrópumálunum.

„Færeyingar borga þannig helmingi lægri vexti af húsnæðislánum sínum en Íslendingar. Ástæðan er einföld: gjaldmiðill Færeyinga er bundinn dönsku krónunni og danska krónan bundin evrunni. Samfylkingin samþykkti á landsfundi fyrir 12 mánuðum að halda sig við þá stefnu að séríslenska leiðin væri úr sér gengin. En það eru greinilega 12 mánuðir síðan,“ bætir hann við og deilir mynd af Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, þar sem hún segir að hægt sé að lækka vexti með fleiri leiðum en að ganga í myntbandalag.