Þann beiska kaleik verður þó VG að drekka í botn ef ríkisstjórnin á að lifa

Í flestum löndum myndi dómur Mannréttindadómstóls Evrópu leiða til tafarlausrar afsagnar dómsmálaráðherrans. Ísland er hins vegar ekki einsog önnur lönd, segir Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra í færslu á fésbókinni í dag. Hann segir gamla ráðherraræðið aftur komið til vegs.

„Dómsmálaráðherra er þar að auki “fighter” dauðans, með gamaldags hugmyndir um völd ráðherra, og að eðlisfari þannig nagli að hún segir aldrei af sér nema fyrst rigni eldi og brennisteini — úr bæði Valhöll og Stjórnarráðinu,“ segir hann.

„Sjálfstæðisflokkurinn frá grasrót og upp í eyru mun standa með henni fram í rauðan dauðann. Framsókn mun síga út á hliðarlínur og finna laufblöð til að fela sig undir. Eina spurningin sem skiptir máli fyrir afleiðingar dómsins á stjórnmál Íslands er þessi: Hvernig munu Katrín Jakobsdóttir og VG bregðast við þessari stöðu? 

Össur Skarphéðinsson fv. utanríkisráðherra.

Katrín sagði sjálf þegar hún lagði upp sem forsætisráðherra að hún myndi beita sér fyrir nýsköpun í stjórnmálum. Í dag er hún að upplifa ranghverfuna af sínum eigin orðum. Ætli hún að lifa af á hún þann grænstan að hörfa inn í samtryggingu liðins tíma, þar sem samstarfsflokkar í ríkisstjórn láta allt yfir sig ganga til að halda völdum,“ bætir hann við.

Róttæka baklandið tók til fótanna

„Róttæka baklandið tók hins vegar til fótanna þegar Katrín og VG ákváðu að mynda ríkisstjórn til hægri og gamla baklandið er löngu farið. Kalt mat er að forysta VG sé löngu búin að gera upp við sig að hún er reiðubúinn að láta VG kosta til hverju sem þarf svo ríkisstjórnin lifi kjörtímabilið – og Katrín fjögur ár sem forsætisráðherra. Það, ásamt forsetadæmi Steingríms, voru drifkraftarnir á bak við ákvörðun VG um að mynda hægri-miðju stjórn og hafna stjórn til vinstri.

Dýrkeypt verður þó líklega fyrir arftaka hins prinsippfasta Sósíalistaflokks Íslands að ganga nú öðru sinni undir höggið til að verja Sigríði Andersen og Sjálfstæðisflokkinn gagnvart vantrausti. Í þetta sinn verður það þeim mun erfiðara þar sem í dag stendur VG andspænis mjög harðorðri gagnrýni Mannréttindadómstóls Evrópu á ráðherrann. Þann beiska kaleik verður þó VG að drekka í botn ef ríkisstjórnin á að lifa. 

Í þessari stöðu er óhjákvæmilegt að vantraust komi fram ef eitthvað blóð er eftir í stjórnarandstöðunni — sem oft má þó efast um. Út úr vantraustinu mun VG koma þrútið af lamstri veðra, með slitna brynju og sundrað sverð og líklega töluverð syndagjöld.

Ríkisstjórnin mun samt lifa. Katrín mun dingla áfram sem forsætisráðherra. — Úr því sem komið er skiptir ekkert annað máli í huga VG,“ segir Össur ennfremur.