Þegar óreiðan er hjá ríkisstjórninni á þjóðin að upplifa festu í Samfylkingunni

„Nú reynir á. Á tímum sem þessum reynir á okkur í Samfylkingunni og jafnaðarfólk um land allt. Því þegar það er óreiða hjá ríkisstjórninni — þá á þjóðin að upplifa festu í Samfylkingunni,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi í Hofi á Akureyri nú í dag.

Hrókeringar í ríkisstjórninni og afsögn Bjarna Benediktssonar sem fjármálaráðherra var formanni Samfylkingarinnar ofarlega í huga á fundinum og stillti hún flokki sínum upp sem skýrum valkosti gegn vandræðagangi ríkisstjórnarflokkanna.

„Þegar ráðherrar eru fastir í aukaatriðum og sínum eigin vandamálum — þá á Samfylkingin að halda áfram að horfa á aðalatriðin og hlusta á fólkið í landinu. Þegar núverandi ráðamenn nálgast endastöð eftir áratug við völd — þá á Samfylkingin að bjóða upp á nýtt upphaf og nýja forystu — fyrir land og þjóð,“ sagði hún og hvatti um leið flokksfólk til að taka verkefnið alvarlega, ekki láta slá sig út af laginu og mest um vert væri að Samfylkingin fylgi eigin áætlun en eltist ekki við upphlaupin og ringulreiðina hjá ríkisstjórninni.