Þrenns konar sjónarmið vegast á um orkupakkann

Arnar Þór Jónsson fv héraðsdómari og nú varaþingmaður. / RAX.

Eftir Arnar Þór Jónsson:

Almenn umræða um Orkupakka 3 hefur þjónað þeim tilgangi að draga fram megináherslur og ásteytingarsteina.

Í viðleitni til að draga þetta saman leyfi ég mér að telja að í raun vegist hér á þrenns konar sjónarmið: 

1. Í fyrsta lagi sjónarmið þeirra sem eru á móti Orkupakka 3 og vilja ekki sæstreng. Röksemdir þeirra byggja á því að Íslendingar eigi sjálfir að hafa forræði á því hvernig íslenskri raforku er ráðstafað og telja að með því að innleiða O3 með öllum þeim markmiðum sem tilgreind eru í inngangskafla hans væru Íslendingar, að þarflausu, að gefa höggstað á sér og veikja varnir sínar í samningsbrotamálum fyrir EFTA dómstólnum. Þetta sjónarmið byggir ekki síst á því að óraunhæft sé að samningsbrotamál verði höfðað gegn íslenska ríkinu fyrr en búið er að innleiða reglur sem heimila hagsmunaaðilum að fara inn á samevrópskan raforkumarkað. 

2. Í öðru lagi sjónarmið þeirra sem vilja innleiða Orkupakka 3 og vilja ekki sæstreng. Röksemdir þeirra byggja á því að innleiðing O3 leiði ekki sjálfkrafa til þess að sæstrengur verði lagður og að Íslendingar geti varist í samningsbrotamáli með öðrum lagarökum. 

3. Í þriðja lagi sjónarmið þeirra sem vilja innleiða Orkupakka 3, vilja fá sæstreng og alþjóðlega markaðsvæðingu íslenskra orkuauðlinda. Röksemdir þeirra byggja á því að Íslendingar eigi að vera þátttakendur í að skapa alþjóðlegan raforkumarkað, þrátt fyrir að það muni leiða til hækkaðs orkuverðs fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki.

Út frá sjónarmiðum um eðlilega hagsmunagæslu tel ég valkost eitt ábyrgustu leiðina, en fyrir mitt leyti hvet ég til kröftugrar og málefnalegrar umræðu um málið, enda varðar þetta mikilsverða hagsmuni íslensks almennings og atvinnulífs.

Það ber vott um heilbrigt lýðræði að sem flestir setji sig inn í málin og geri grein fyrir afstöðu sinni út frá eigin skynsemi og bestu samvisku. Með því móti getum við búið saman í frjálsu samfélagi, sem virðir sjálfsákvörðunarrétt fólks og þar sem almennir kjósendur hafa áhrif á gangverk stjórnmálanna og þar sem stofnanir ríkisins þjóna hagsmunum almennings.

Höfundur er héraðsdómari.