Þurfum við ekki biskup sem breytir þessu?

Hugleiðing dagsins er í boði athafnamannsins Stefáns Þórarinssonar, sem eitt sinn var kenndur við Nýsi, en hann fjallar um stöðu Þjóðkirkjunnar og kristni í landinu, með hætti sem eftirtektarverður er:

„Því miður hefur lítið farið opinberlega fyrir biskupskjöri Þjóðkirkjunnar. Biskupsefnin virðast fyrst og fremst beina sér að þeim fámenna hópi sem hefur rétt til að kjósa.

Almenningur er afskiptur eins og það komi þeim ekki við hver verður biskup Íslands. Þetta kemur ekki á óvart því Þjóðkirkjan og prestar almennt hafa haldið sig til baka lengi og einskorðað sig að mestu við formfastar skyldur og venjur, öfugt við það sem Frelsarinn og lærisveinar hans gerðu.

Fólk skráir sig úr kirkjunni og mætir ekki í messur, því miður. Ég veit ekki hvort sóknarprestar leiti til þeirra sem fara úr kirkjunni um hvað það er sem veldur, þó að mig gruni að þeir láti það afskiptalaust.

Í ofanálag er þetta góða tækifæri til að koma kirkjunni á kortið sem biskupskjör er, látið renna sér úr greipum. Þurfum við ekki biskup sem breytir þessu til batnaðar og eflir kristni og kirkju?“

Allt eru þetta réttmætar spurningar hjá Stefáni, sem margt hugsandi fólk sem enn tilheyrir Þjóðkirkjunni, hlýtur að velta fyrir sér.