Þurfum við virkilega sautján pólitíska aðstoðarmenn flokkanna?

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Svo virðist sem samstaða sé meðal flokka á þingi um það að fjölga aðstoðarmönnum þingflokka en ekki er samkomulag um í hvaða röð þeim skuli úthlutað. Þingflokksformenn munu funda um málið í dag, að því er kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Blaðið segir að núverandi tillögur gera ráð fyrir því að sautján aðstoðarmenn deilist niður á þingflokkana í samræmi við þingstyrk þeirra en að auki fái hver flokkur ritara. Þingflokkar geti áfram ráðið sér aðstoðarmenn á eigin kostnað. Forsætisnefnd samþykkti fyrirhugaða fjölgun í sumar en með henni er stefnt að því að efla Alþingi.

Frá því lög um fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálastarfs voru stórhert og hámark sett á upphæð styrkja hafa útgjöld hins opinbera til stjórnmálastarfs í landinu vaxið gríðarlega. Bara í fyrra var ákveðið að hækka framlög til stjórnmálaflokkanna um 362 milljónir og er nú samtals um 642 milljónum króna varið til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði árlega. Til viðbótar koma þá 120 milljónir króna nú.

Varla er til sá málaflokkur sem hefur bólgnað jafn rækilega út og framlög til stjórnmálaflokka í fjárlögum ríkisins.

Þessu til viðbótar hefur svo orðið algjör sprenging í fjölgun pólitískra aðstoðarmanna ráðherra hjá ríkisstjórninni og raunar síðustu ríkisstjórnum.

Nú þegar erfiðar viðræður eru framundan á vinnumarkaði og útlit fyrir stéttaátök, meðal annars í skugga ákvörðunar Kjararáðs um stórhækkun launa fyrir æðstu embættismenn þjóðarinnar, er ekki að undra þótt margir velti því fyrir sér, hvort tillögur forseta Alþingis nú og forsætisnefndar séu skynsamlegt innlegg.

Önnur spurning sem vaknar líka, er þessi: Þurfum við Íslendingar virkilega alla þessa pólitísku aðstoðarmenn?