Tillaga um verkbann á alla félagsmenn VR samþykkt í stjórn Samtaka atvinnulífsins

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA. / SA.

Í ljósi atkvæðagreiðslu VR um boðun verkfallsaðgerða fyrir farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli hefur
stjórn Samtaka atvinnulífsins samþykkt einróma að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn í VR. Verkbannið mun, ef til þess kemur, ná til alls skrifstofufólks sem aðild á að VR og fellur undir almennan kjarasamning SA og VR.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá SA. Stjórn VR hefur hrint af stað atkvæðagreiðslu um boðun verkfallsaðgerða fyrir farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Fyrstu lotu verkfalls er ætlað að standa í þrjá sólarhringa, frá kl. 00:01 föstudaginn 22. mars til kl. 23:59 sunnudaginn 24. mars.

Í yfirlýsingu SA, segir að aðgerðunum virðist ætlað að brjóta þá launastefnu sem var nýverið mörkuð með Stöðugleikasamningnum, launastefnu sem forysta VR hafi sjálf tekið þátt í að móta.

„Við höfum gengið frá Stöðugleikasamningi við öll stærstu stéttarfélög og landssambönd á almennum vinnumarkaði. Stöðugleikasamningurinn er fjögurra ára kjarasamningur sem tryggir launafólki 3,25-3,5% árlegar launahækkanir með 23.750 kr. lágmarki. Markmið samningsins eru að ná niður verðbólgu og stuðla að því að skilyrði skapist til vaxtalækkana en þeim markmiðum stendur ógn af boðuðum skæruverkföllum í tengslum við sérkjarasamning
sem leiðir af aðalkjarasamningi VR.“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.

Eins og rækilega rifjaðist upp fyrir landsmönnum í fyrra, er vinnulöggjöfin þannig byggð upp, að verkfallsrétturinn er launamanna en verkbannsrétturinn úrræði atvinnurekanda í vinnudeilum. Samtök atvinnulífsins segja þetta samhverfu sem gildi um vinnustöðvanir og þau séu „óhrædd við að beita“ því.

„Í stað þess að forysta VR lami starfsemi tiltekinna fyrirtækja og atvinnugreina með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni auka þrýsting á VR að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum. Verkbann er sambærilegt verkfalli og þýðir að félagsfólk VR mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður.

Tilgangur boðaðs verkbanns af hálfu SA er að þrýsta á forystu VR að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum í takt við þá stefnu sem þegar hefur verið mörkuð. Tilgangur verkbannsins er að verja tækifærið til að ná efnahagslegum stöðugleika.“ segir Sigríður Margrét.

Atkvæðagreiðsla hefst um verkbann meðal allra aðildarfyrirtækja SA, þann 12. mars kl. 12:00 og upplýsingafundur hefst í kjölfarið kl. 14:00. Atkvæðagreiðslan stendur til 14. mars kl. 14:00. Verði verkbann samþykkt mun það taka gildi föstudaginn 22. mars kl. 00:01, þ.e. á sama tíma og verkfalli VR er ætlað að hefjast.

Veittar verða undanþágur frá verkbanni vegna nauðsynlegrar grunnþjónustu.

Fresti forysta VR boðuðum verkföllum munu Samtök atvinnulífsins að sama skapi fresta verkbannsaðgerðum.