Vaknaði eftir stuttan lúr við 8% verðbólgu: „Hvar er forystan í efnahagsmálum?“

„Ég ætlaði að halda ræðu um allt annað en svo tók ég stuttan morgunlúr með dóttur minni og vaknaði upp við að það er 8% verðbólga í landinu og hún er á uppleið annan mánuðinn í röð,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar á þingi í dag. Við þetta brast hluti þingheims í hlátur og sagði þingmaðurinn Sjálfstæðisflokkinn vera í hláturskasti í hliðarsölum.

„Það er ekkert á dagskrá hérna nema einhver þingmannamál sem allir hér inni vita að verða ekki að lögum, kemur ekkert frá ríkisstjórninni og það er bara hlegið og trallað, það er bara dinglumdangl og dútl.,“ bætti hann við.

Var þá gripið fram í og kallað að ný Mannréttindastofnun væri á dagskrá þingsins, en því svaraði Jóhann Páll: „Mannréttindastofnun mun ekki laga verðbólguna. Hún er ágæt og hún hefði átt að koma fyrir löngu, en hvar eru aðgerðirnar og hvar er forystan? Á ekkert að sýna forystu hérna, bara kynna bókina sína í útlöndum? Fólkið í landinu er að spyrja sig: Hvar er ríkisstjórnin og hvar eru alvöruaðgerðir til að sporna gegn verðbólgu og verja fólkið í landinu gegn verðbólgu? Það hafa það ekki allir jafn gott og við hérna. Og hvenær kemur kjarapakkinn sem við í Samfylkingunni höfum kallað eftir aftur og aftur og aftur? Það er ekki nóg að segja bara aftur og aftur: Verðbólgan mun fara niður, það er hálfleikur, hohoho, verðbólgan mun fara niður og það er gaman hjá okkur.

Það þarf að grípa til aðgerða og það þarf að sýna að okkur sé alvara í viðureigninni við verðbólgu. Nú er staðan þannig að verðbólguvæntingar eru á uppleið ef eitthvað er vegna þess að fólkið í landinu og fólkið sem rekur fyrirtækin hérna hefur enga trú á að þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í og hafa verið kynntar aftur og aftur, sömu aðgerðirnar á sömu glærusýningu á sömu blaðamannafundunum aftur og aftur, dugi til að sporna gegn verðbólgu, hvað þá heldur til að verja fólkið í landinu gagnvart henni.

Hvar er forystan? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að vakna? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að átta sig á því, eins og ég gerði hérna áðan þegar ég vaknaði, að það er 8% verðbólga í landinu og hún er á uppleið og það þarf að taka á því? Hvar er ríkisstjórnin? Hvar er forystan í efnahagsmálum?“ sagði Jóhann Páll ennfremur.