Vanræksla og vanhæfni ráðherra veldur samfélaginu stórkostlegu tjóni og skaða

Inga Sæland./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Hver hefur ekki heyrt talað um snjóhengjuna yfirvofandi sem reyndar hefur orðið að snjóflóði fyrir allnokkuð marga nú þegar?“ spurði Inga Sæland, formaður Flokksins fólksins á Alþingi í dag.

„Mig langar að tala um 57 millj. kr. að fasteignalán þar sem einstaklingur hefur fengið snjóflóðið yfir sig og hefur verið að borga á mánuði núna ríflega 500.000 kr. Af þessum 500.000 kr. fara ríflega 10.000 kr. inn á höfuðstól lánsins. Restina, 489.555 í vexti, hirða bankarnir.

Í umboði hverra, leyfist mér að spyrja? Höfum við orðið vitni að annarri eins vanhæfni og vanrækslu nokkurrar ríkisstjórnar gagnvart samfélaginu í heild sinni? Ég held ekki. Þessi ríkisstjórn hefur vogað sér að fleygja inn handklæðinu. Hún er ekki að taka neina ábyrgð á þeim hörmungum sem eru að ganga hér yfir samfélagið.

Hún hallar sér aftur og horfir á skútuna sökkva. Það er ekki flóknara en það. Við eigum að fara að horfa upp á stórkostlega fólksflutninga frá landinu hjá þessum einstaklingum; ungt fólk í blóma lífsins ætlar ekki að margborga sömu fasteignina hér, eins vaxtaokurkúgað og það er.

Það er kominn tími til að þessi ríkisstjórn axli ábyrgð og taki til hendinni og geri það sem hún var kjörin til að gera. Ef ekki þá er kannski kominn tími til að láta reyna á þá löggjöf sem við eigum þó enn til þótt þau séu að reyna að losa okkur við hana, sem á í rauninni að taka á vanrækslu og vanhæfni ráðherra sem í rauninni veldur samfélaginu stórkostlegu tjóni og ómældum skaða. Þannig að, ágæta ríkisstjórn, ef þið farið ekki að gyrða ykkur í brók þá eigið þið eftir að heyra meira frá mér hvað það varðar,“ bætti hún við.