Tillögur um mögulega varnargarða hafa verið í rýni hjá almannavörnum sem hyggjast gera tillögur til stjórnvalda núna á allra næstu dögum um hvað sé rétt að gera. Þær þarf auðvitað að vinna í mjög nánu samráði við okkar besta fólk á sviði jarðvísinda því að það skiptir auðvitað máli að þessir varnargarðar, verði af þeim, séu á réttum stöðum og þjóni því hlutverki sem þeim er ætlað að gera. Það er þegar verið að setja hæla í jörð þannig að það móti fyrir útlínum á þessum varnargörðum. Það er búið að undirbúa það að tryggja bæði efni og tæki. Hins vegar er það ekki enn komið á það stig að það liggi fyrir formleg tillaga frá almannavörnum en ég vænti þess að það liggi fyrir á allra næstu dögum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í dag í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, um viðbragðsáætlun og aðgerðir vegna mögulegs eldgiss á Reykjanesi.
Sigmundur Davíð benti á að margir sérfræðingar hafi bent á mikilvægi þess að farið verði að gera ráðstafanir vegna hugsanlegra eldsumbrota, samkvæmt spám væntanlega einhvers staðar í grennd við Svartsengi, ef af verður.
„Ármann Höskuldsson jarðfræðiprófessor, sem er í innviðahópi almannavarna, lýsti því yfir að framkvæmdir við varnargarða ættu að vera hafnar. Það væri þegar búið að fara í undirbúningsvinnuna og ríkisstjórnin virtist í þessu máli haldin einhverri ákvarðanafælni og upplýsingaóreiða fylgdi þessu í of miklum mæli. Víðir Reynisson, yfirmaður almannavarnadeildar, sagði að ákvörðun væri orðin tímabær. Því spyr ég forsætisráðherra: Er ekki orðið tímabært að fara að ráðum þessara sérfræðinga og a.m.k. taka einhverja ákvörðun og helst þá að hefja framkvæmdir til að verja byggð og aðra innviði? Eins og sérfræðingar benda á þá er of seint að hefjast handa þegar eldgos er hafið.“
Forsætisráðherra benti á að almannavarnir væru nú þegar á viðbúnarstigi vegna ástandsins. „Það getur verið fært upp á hættustig og það breytir þá aðeins þeim heimildum sem almannavarnir hafa til að grípa til slíkra aðgerða. Það sem hefur líka verið gert hefur verið að undirbúa mögulegar neyðarkyndistöðvar og varavatnsból,“ sagði hún.