„Eins og svo oft áður eru margir fljótir að gagnrýna Seðlabankann fyrir að hækka vexti. Á Íslandi hefur sjaldan verið til staðar pólitískur vilji til þess að halda verðbólgu niðri þegar reynir á,“ segir Jón Steinsson prófessor í hagfræði við Berkeley-háskólann í Bandaríkjunum og undrast gagnrýni sem fram hefur komið á vaxtahækkun Seðlabankans, sem tilkynnt var í vikunni.
Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur m.a sagt vaxtahækkunina vera stríðsyfirlýsingu gagnvart komandi kjaraviðræðum.
Jón segir í færslu á fésbók að þetta sé ástæða þess að verðbólga sé svo oft himinhá á Íslandi.
„Á síðustu 12 mánuðum hefur verðbólga hækkað um 1,5 prósentustig og allra síðustu mánuði hefur gengi krónunnar lækkað talsvert og verðbólguvæntingar hækkar hratt. Ef Seðlabankinn bregst ekki við þessu er hætt við því að verðbólga fari algerlega úr böndunum,“ segir hann.
Og hagfræðiprófessorinn bætir við:
„Smá hagfræði 101: Seðlabankinn þarf að hækka nafnvexti um sem nemur hækkun verðbólgu (eða verðbólguvæntinga) bara til þess að halda raunvöxtum óbreyttum og aðhaldi óbreyttu. Þessi pínulitla hækkun sem Seðlabankinn kynnti á dögunum nægir ekki einu sinni til þess.“