Verðtryggingin er ósanngjörn, óheiðarleg og örugglega ólögleg

Íslendingar eru enn að dæla verðtryggðum lánum inná heimilin undir því yfirskyni að þannig geti fleiri eignast fasteignir.

Þetta segir Hermann Guðmundsson athafnamaður og fv. forstjóri Olíufélagsins N1 og Bílanaust. Hann segir að sumum finnist meira að segja að það séu of mikil höft á því hversu löng lán megi verðtryggja og telji ástæðu til að rýmka reglur verulega í þeim efnum.

„Vinstri menn virðast ekki hafa áttað sig á að með því að leggja niður verðtrygginguna er komin aðferð til að færa fé frá fjármagnseigendum til skuldara þegar illa árar sem aftur flýtir fyrir bata í hagkerfinu,“ segir Hermann.

„Hægri menn sjá verðtrygginguna sem aðferð til að forðast rýrnun fjáreigna sem er einsdæmi í vestrænum heimi þar sem fjárfestar verða að taka áhættu með því að fjárfesta í hrávörum, gulli eða skuldabréfum til að verja sínar fjáreignir,“ bætir hann við.

Hann segir verðtrygginguna ósanngjarna, hún sé óheiðarleg og alveg örugglega ólöglega samkvæmt lögum ESB um neytendavernd.

„Íslenska krónan verður aldrei eins og aðrar myntir á meðan við búum til slíka afleiðusamninga á almennt launfólk sem skuldar síðan í áratugi lánasamninga sem enginn skilur, sem enginn getur reiknað út endinn á og enginn veit hvort að ævin endist til að borga lánið upp,“ segir Hermann Guðmundsson.

Ummæli hans vekja ekki síst athygli, þar sem hann er náinn trúnaðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og hefur verið um árabil.