Veturinn er að koma: Krónan er að hrynja

Ekkert lát er á gengisfalli krónunnar. Svo virðist sem aðgerðir Seðlabankans hafi engin áhrif, hvorki rýmkaðar reglur né vaxtahækkanir. Gengi krónu gagnvart evru og dollara hefur lækkað um tugi prósenta á fáeinum mánuðum.

Samkvæmt opinberri gengisskráningu í dag stendur bandaríkjadalur í ríflega 124 krónum. Evran er komin í 140 krónur. Hrunið gagnvart dollar er tæplega þriðjungur á aðeins hálfu ári.

Engum fregnum fer af sérstökum fundum hjá ríkisstjórninni og Seðlabanka vegna málsins, en fullyrða má að slíkt gengishrun væri stærsta frétt ársins í öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Ekki þarf að fjölyrða um áhrif þessa á lífskjör almennings. Verðbólgan er við það að taka stórstökk og vöruverð mun hækka mikið á næstunni. Við það munu verðtryggð lán landsmanna stökkbreytast. Þá er þess ógetið, að kjarasamningar fjölmargra stétta verða lausir í vetur og útlit fyrir mjög erfiða kjarabaráttu.

„Ég get bara alls ekki séð hvernig á að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði þegar það liggur fyrir að áður en formlegar kjaraviðræður hefjast þá sé veruleg verðbólga að skella á íslenskum heimilum af fullum þunga,“ segir Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi á Akranesi.

Hann bendir á að hugmyndir að kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar hafi ekki einu sinni verið komnar niður á blað þegar krónan fór að falla.