Óhætt er að segja að flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem haldinn var í gær og á föstudag, sendi samstarfsflokknum í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokknum og formanni hans, Bjarna Benediktssyni, skýr skilaboð með ályktun sem samþykkt var í gær:
„Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, haldinn í Reykjavík, 1.-2. mars 2024, krefst þess að framlög til Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í Palestínu verði greidd enda hefur stofnunin um áratuga skeið gegnt lykilhlutverki í því að koma aðstoð til flóttafólks frá Palestínu m.a. á Gasa og á Vesturbakkanum. Ísland á ekki að taka þátt í óréttmætri hóprefsingu annarra vestrænna ríkja sem bitnar á lífsbjörg milljóna almennra borgara. Ályktun Alþingis frá því seint á síðasta ári er skýr, ríkisstjórnin á að beita sér fyrir mannúðaraðstoð á svæðinu og mikilvægt er að árétta það. Rödd Íslands þarf að heyrast á alþjóðavettvangi þar sem þess er krafist að morðárásum á saklaust fólk verði tafarlaust hætt og ber að fordæma ítrekuð hryðjuverk og stríðsglæpi fyrir botni Miðjarðarhafs líkt og íslensk stjórnvöld hafa gert. Tekið verði undir með þeim þjóðríkjum sem vilja að aðskilnaðarstefna, stríðsglæpir og þjóðarmorð verði tekin fyrir hjá viðeigandi dómstólum alþjóðasamfélagsins.“
Sem kunnugt er, ákvað Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra að frysta tafarlaust öll framlög Íslands til Flóttamannaaðstoðarinnar, þar sem fram hafa komið ásakanir um að starfsmenn hennar hafi tengst árásum Hamas á Ísrael og gíslatöku almennra borgara í október sl.
Og þrír erindrekar hafa verið á vegum utanríkisráðherra að kanna með hvaða hætti íslensk stjórnvöld geti greitt götu Palestínufólks sem hlotið hefur dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Greinilegt er að flokksráði VG finnst hægt ganga í þeim efnum og sendir utanríkisráðherranum skilaboð þess efnis:
„Flokksráðfundurinn hvetur ráðherra hreyfingarinnar til að beita sér enn frekar fyrir aðgerðum til að sameining palestínskra fjölskyldna verði að veruleika. Það er mikilvægt að forysta og ráðherrar Vinstri grænna tjái afstöðu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með skýrum hætti og stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fólki án tafar af hættusvæðinu á Gasa og komi því í öruggt skjól á Íslandi. Flokksráðfundurinn krefst þess einnig að þegar í stað verði látið af brottvísunum á palestínsku flóttafólki og því veitt vernd á Íslandi. Sjötíu og fimm ára útþenslustríði Ísraels gagnvart nágrönnum sínum ber að fordæma og bregðast við rétt eins og ofríki rússneskra yfirvalda gagnvart sínum nágrönnum. Þá styður flokksráð eindregið sniðgöngu almennings á vörum og þjónustu frá Ísrael.“
Og í ályktuninni er spjótum einnig beint að forystu Vinstri grænna og kjörnum fulltrúum flokksins:
„Flokksráðsfundurinn hvetur forystu, þingflokk og ráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að halda áfram að tjá afstöðu hreyfingarinnar opinberlega með skýrum hætti.“