VG rótar í gömlu dóti eftir gulnuðum erindisbréfum sínum í pólitík

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og alþingismaður /Ljósmynd: Gassi fyrir Norðurlandaráð.

„Samfylkingin er aftur komin á sinn stað í íslensku flokkakerfi, frá miðju og til vinstri, ef fólk vill nota slík hugtök til hægðarauka,“ segir Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og varaþingmaður flokksins.

Það er vindur í seglum Samfylkingarinnr um þessar mundir og færslan á fésbókinni ber þess merki að sjálfstraustið sé töluvert. Guðmundur Andri sat á þingi fyrir Samfylkinguna á síðasta kjörtímabili og var þá í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins þvert yfir pólitíska ásinn.

Hann segir að Vinstri græn hafi áður komið sér fyrir þægilega hægra megin við Samfylkinguna, með forsætisráðherra sem naut mikilla – og verðskuldaðra – persónulegra vinsælda og fólk hafi staðið margt í þeirri meiningu að landinu yrði hreinlega ekki stjórnað nema í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn, og með þann flokk í fjármálaráðuneytinu.

„Nú er sú sjálfsmynd öll í uppnámi: Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hrökklast úr embætti fjármálaráðherra, sem er meiriháttar pólitískur ósigur fyrir hann, flokkinn hans og ríkisstjórnina, og þjóðin hefur fengið nóg af fjármálavafstri Sjálfstæðisflokksins, hvort sem það birtist í sölu ríkiseigna til sérgæðinga eða vaxtaokri í kjölfar þess að fólk hefur verið ginnt til að taka óverðtryggt lán á lágum vöxtum, bara til að fá svo yfir sig holskefluna síðar.

Smám saman er að koma betur og betur á daginn að það er rangt að landinu verði ekki stjórnað nema Sjálfstæðisflokkurinn stýri fjármálaráðuneytinu. Meira að segja vinir okkar í VG eru að átta sig á því og reyna nú í óða önn að róta í gömlu dóti eftir gulnuðum erindisbréfum sínum í pólitík,“ segir Guðmundur Andri.