Virðumst því miður vera komin inn í tíma áfalla og breyttra tíma

„Við virðumst því miður vera komin inn í tíma áfalla og breyttra tíma, ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar í kringum okkur. Á meðan leggur ríkisstjórnin áherslu á mikilvægi þess að verja kaupmátt og lífskjör þeirra verst settu. Þetta höfum við gert, m.a. með því að tryggja að kaupmáttur lægstu bóta rýrni ekki, fyrir utan auðvitað tekjuskattsbreytingar með sérstakan fókus á tekjulægri.“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í gær þar sem afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu voru til umræðu, að frumkvæði Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar.

Verðbólguskeiðið núverandi hófst með verðhækkunum sem tengdust framleiðsluvandræðum vegna heimsfaraldurs og sóttvarnaráðstafana honum tengdum, ásamt auðvitað hækkun orku-, gas- og hrávöruverðs, vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, en hún ágerðist hins vegar og reyndist viðvarandi vegna mikillar eftirspurnar eftir að efnahagsleg áhrif faraldursins runnu sitt skeið, sagði ráðherrann.

„Líkt og í öðrum vestrænum ríkjum felur Alþingi Seðlabankanum að beita tækjum sínum með þeim hætti að eftirspurn í hagkerfinu samræmist verðmætasköpun svo að verðbólga sé lág og stöðug. Í mínum huga hafa ríkisfjármálin helst eina leið til að leggja sín lóð á þær vogarskálar, þ.e. að halda aftur af vexti útgjalda. Það er leið ríkisfjármála til að ná niður verðbólgu og vöxtum. Hér þarf að vera um algjört forgangsmál að ræða því að sterk afkoma ríkissjóðs og lág skuldahlutföll munu auðvitað ekki aðeins stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta, þjóðinni til heilla, heldur munu þau líka skapa nauðsynlegt bolmagn fyrir ríkissjóð að bregðast við áföllum sem nóg er af þessi misserin,“ bætti hún við.

Fjármálaráðherra kvaðst, að sjálfsögðu, hafa samúð með fólki sem hefur nýlega tekið fasteignalán en býr við allt annað vaxtaumhverfi nú, sem er óviðunandi staða. Verðmæti eigna þessa fólks hafi þó hækkað, oft verulega, á undanförnum mánuðum.

„Þess vegna er það enn frekar óviðunandi staða hjá fólki sem á ekki eigin fasteign en hefur verið að safna fyrir henni. Sá sparnaður hefur brunnið upp í verðbólgu, einkum með hratt hækkandi fasteignaverði, og þröskuldurinn fyrir þessa einstaklinga inn á fasteignamarkað hefur hækkað allt of mikið.

Ástandið er auðvitað ekki alslæmt af því að verðbólgan er sem fyrr segir vegna mikillar eftirspurnar, sem leiðir af sterkri fjárhagsstöðu heimila og góðu atvinnuástandi þar sem atvinnuleysi hefur verið lágt og kaupmáttur, einkum þeirra verst settu, hefur vaxið og síðan haldist.

Nú er mikilvægasta viðfangsefnið fyrir lífskjör fólks að ná niður verðbólgu og vöxtum og allar tilfærslur, ef við hugum að mögulegum leiðum, einhverjum fljótlegri leiðum heldur en því verkefni, þá eru allar tilfærslur bara greiddar af þeim sem hér búa og greiða skatta í ríkissjóð. Aðeins með því að vinna bug á verðbólgu getum við lækkað vexti og hjálpað þessum hópum, bæði þeim sem eru á leigumarkaði, þeim sem eru fasteignaeigendur og þeim sem vilja svo mjög gjarnan komast inn á þessa markaði. Það getur ríkissjóður aðeins gert með því að halda aftur af vexti útgjalda, hagræða og vinna gegn sóun í ríkisrekstri.

Varðandi aðgerðir og áhrif vegna neikvæðra áhrifa hás vaxtastigs á nýbyggingu fasteigna og möguleika fólks til að komast inn á húsnæðismarkað þá fylgjumst við auðvitað vel með því hvernig hækkandi vextir hafa haft áhrif á hagkerfið og ekki síst íbúðamarkað.

Góðu fréttirnar eru þær að mikill vöxtur var í framkvæmdum undanfarin misseri og því eru margar íbúðir í byggingu, margar þeirra að nálgast seinni stig framkvæmda og er enn von á talsverðum fjölda nýrra bygginga á markað á næstunni. Á sama tíma hefur íbúðum á söluskrá fjölgað umtalsvert, sem er mikil breyting frá því fyrir nokkrum misserum þegar barist var um hverja íbúð sem auglýst var til sölu.

Að þessu sögðu þá hefur íbúðum sem byrjað er að byggja fækkað og mikilvægasta verkefnið til að snúa þeirri þróun við er að ná stjórn á verðbólgu svo að hægt sé að lækka vexti. Það er líka mikilvægasta verkefnið til að auðvelda fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það hefur árangur náðst í því.

Það hefur hægt á verðhækkunum og forsendur standa til að verðbólga og vextir lækki á nýju ári, að því gefnu að réttar ákvarðanir séu teknar. Ekki má gleyma því að laun hafa hækkað mikið undanfarið og kaupmáttur launa hefur þrátt fyrir allt aukist sé litið til undanfarinna 12 mánaða. Við höfum lagt aukna fjármuni í hagkvæmar leiguíbúðir í gegnum almenna íbúðakerfið. Alls hafa 2.000 almennar íbúðir verið í notkun og áætlað að 500 bætist við á næsta ári. Skilyrði hlutdeildarlána voru líka útvíkkuð í sumar og það á mögulega sinn þátt í því að fyrstu íbúðarkaupum fjölgaði talsvert samkvæmt nýjustu tölum,“ sagði fjármálaráðherra ennfremur.