Samúðarfull sýn inn í líf samkynhneigðra blóðsuga

Hjörtur Sævar Steinason leikur forna, einmana og samkynhneigða blóðsugu.

Þegar dimmir og napur nóvemberkuldinn sækir að, hvað er þá meira freistandi en að sökkva sér til botns í sjálfshatrinu og taugaveikluninni, með því að horfa á hrollvekju?

Komin er í sýningu myndin Þorsti, og ég skellti mér í bíó aldrei þessu vant, vegna þess að það er ekki á hverjum degi sem gerðar eru íslenskar splatter-myndir. „Splatter“ er enskt orð og lýsir undirflokki hrollvekjukvikmynda, sem eru ódýrar, og með yfirdrifnu ofbeldi, iðrum og blóði – en oft líka léttu gamansömu ívafi fyrir svörtustu sálirnar. Páll Óskar Hjálmtýsson ku vera mikill aðdáandi slíkra mynda og kynnti þær sérstaklega til sögunnar á Íslandi í útvarpsþætti löngu fyrir síðustu aldamót – ef ég man rétt.

Óöld ríkir, heimsendir er í nánd og blóðið flýtur

Þorsti gerist í bæ þar sem óöld ríkir og hryllileg ofbeldisbrot eru framin daglega. Myndin er um konu sem er í óreglu og er grunuð um að hafa valdið dauða bróður síns. Hún er því til yfirheyrslu og rannsóknar hjá lögreglunni, en er sleppt vegna ónógra sannana. Pillusjúk og drykkfelld móðir hennar trúir að hún hafi orðið bróður sínum að bana, og hún á í engin hús að venda og rápar um, þar til hún rekst á ævaforna, einmana og samkynhneigða blóðsugu. Hann hjálpar henni að vekja bróðurinn aftur upp frá dauðum, með skelfilegum afleiðingum. Á meðan eru þau hundelt af snarbiluðum sértrúarsöfnuði.

Hulda Lind Kristinsdóttir í hlutverki sínu.

Myndin er frumleg, og ekki er laust við að greina megi í henni skemmtilega ádeilu á samtímann. Eitt af því sem stóð upp úr var hversu vel heppnað valið á aðalleikurunum í myndinni var, þau pössuðu einkar vel í hlutverkin sín og stóðu sig með miklum ágætum, en þau eru úr Leikhópinum X. Í aukahlutverkum myndarinnar eru ýmsir aðrir sem margir Íslendingar ættu að kannast við.

Þorsti er meira en venjuleg hryllingsmynd, hún er hrottaleg, sniðug og vel gerð. Auk þess að láta manni verða flökurt og gera manni bylt við, er hún fyndin, og veitir samúðarfulla sýn inn í líf samkynhneigðra blóðsuga. Ég ætla að gefa henni fullt hús.