„Að sofa í tjaldi er klárlega uppáhalds yfir sumartímann“

Thelma Björk Steimann – fatahönnuður og kennari.

Thelma Björk er 29 ára og uppalin í Breiðholtinu. Hún hefur verið búsett í Kaupmannahöfn síðastliðin fimm ár ásamt maka og dætrum þeirra tveimur.  Thelma Björk er vistvænn fatahönnuður að mennt og starfar í gegnum sitt eigið fyrirtæki þar sem hún er aðallega að selja prjónavörur og uppskriftir. Auk þess vinnur hún mikið sjálfstætt fyrir önnur fyrirtæki, þar sem hún kemur inn sem prjónari. Þar hannar hún og framleiðir prjóna ‘’collection’’ fyrir fyrirtækin. Ásamt þessu er hún að vinna sem handverks kennari í Waldorfskólanum upp í Kvistgård. En hún er ekki búin því hún þjálfar síðan í listhlaupi á skautum fyrir Ørestad klúbbinn. 

„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á tísku, sem færðist svo meira yfir í hönnun með árunum. Ég var mjög ung þegar ég lærði að prjóna fyrst og ég hef alltaf verið dugleg á saumavélinni. Ég valdi að taka námið með fókus á vistvænni fatahönnun, því það er nauðsynlegra að vera með þekkingu um umhverfið innan fataiðnaðarins, enda er hann mest mengandi iðnaðurinn á eftir olíunni“.

„Ég stofnaði fyrirtækið mitt á meðan ég var í náminu, en ég var farinn að vinna sem prjónari fyrir fatamerki á borð við Barbara í Gongíni og Monarc 1 á meðan ég var enþá í náminu. Eitt leiddi síðan af öðru og ég gaf út tvö collection sem ég var með til sölu bæði heima á Íslandi og hérna í Köben. Eftir að ég útskrifaðist ákvað ég síðan að einbeita mér eingöngu af prjóninu og er eingöngu með prjónavörur til sölu, sem eru fáanlegar í gegnum heimasíðuna mína. Hugmyndin á bakvið reksturinn minn núna er að framleiða eingöngu þá vörur sem er eftirspurn eftir,  þannig að kúnnar geta sérpantað peysur eða keypt uppskriftina og prjónað sjálfir“.

Thelma Björk klæðist hönnun sinni

Thelma er nú á fullu núna að setja saman fleiri prjóna uppskriftir, en viðtökurnar fyrir uppskriftunum hafa farið vonum framar. Með uppskriftunum fylgir aðgangur á lokað svæði inná heimasíðu hennar, þar sem hægt er að finna myndskeið með hverri og einni uppskrift, sem leiðbeinir fólki í gegnum verkefnið.

Notalegt teppi eftir uppskrift Thelmu

Thelma Björk heldur úti heimasíðunni thelmasteimann.com þar sem hægt er að versla allar hennar vörur og portfolio mappa hennar hangar þar inni líka. Annars er hún einnig dugleg á instagraminu sínu @thelmasteimann, en það er eini samfélagsmiðilinn sem hún segist nota markvisst ásamt andlistbókinni góðu. 

Hvað er svo planið hjá Thelmu Björk á næstunni ? 

„Í sumar hef ég verið að hanna og sauma dansbúninga fyrir danskan danshóp sem er sjúklega spennandi verkefni sem ég hlakka til að demba mér í. Annars ætla ég að reyna að slaka svolítið á hérna í Danmörku, ferðast um landið og “hygge” með mínu fólki. Ég elska dönsk sumur og stemningin í Köben yfir sumartímann er alltaf svo næs að ég tími ekki að fara eitthvert annað. En þegar ég bjó á Íslandi þá elskaði ég að ferðast um landið, ég gerði mikið af því sem barn og að sofa í tjaldi er klárlega uppáhalds yfir sumartímann. Ég og minn maður áttum bústað á Íslandi sem við seldum eftir að við fluttum út, en það var ekkert meira næs en að eyða timanum okkar þar að dúlla okkur í að gera hann upp, eða kíkja á allar ömmurnar sem bjuggu í sveitunum þar í kring“.


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið sé þar til sumri lýkur.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.