Ágúst Ólafur biður um annað tækifæri: Snýr aftur til þings á morgun

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, snýr aftur til þingstarfa á morgun, að loknu veikindaleyfi. Hann tók sér fyrst launalaust leyfi fyrir áramót þegar upp komst að siðanefnd Samfylkingarinnar hefði veitt honum formlega áminningu fyrir áreitni í garð Báru Huldar Beck, blaðakonu Kjarnans, og síðar fékk hann veikindaleyfi í því skyni að gangast undir meðferð við áfengissýki.

„Á morgun lýkur leyfi mínu frá störfum á Alþingi. Það er ekkert leyndarmál að undanfarna mánuði hef ég þurft að endurskoða líf mitt og sækja mér faglegrar aðstoðar við áfengisvanda, sem var meiri en ég hafði áttað mig á,“ segir Ágúst Ólafur í færslu á fésbókinni í dag.

„Sú aðstoð sem ég hef fengið frá SÁÁ og fleiri stuðningshópum hefur reynst mér ómetanleg. Ég hef þurft að horfast í augu við líf mitt, viðurkenna vanmátt minn gagnvart áfengi og vera tilbúinn að þiggja aðstoð annarra.

Hjá SÁÁ hefur mér opnast nýr heimur. Markmið þeirra sem leita sér aðstoðar er að verða betri samferðarmenn fyrir sína nánustu og samfélagið allt. Hinni eiginlegu meðferð er nú lokið þótt verkefninu ljúki vissulega aldrei.

Ég tek því ekki sem sjálfgefnu að taka aftur sæti á þingi á ný og mun leggja mig allan fram að ávinna mér traust á nýjan leik. Ég brenn enn fyrir því að starfa í þágu samfélagsins og koma góðum málum til leiðar sem stjórnmálamaður.

Í raun er ég biðja um annað tækifæri,“ segir þingmaðurinn.