Áhrifamaður í áratugi

Víg­lund­ur Þor­steins­son, lög­fræðing­ur og fyrr­ver­andi for­stjóri BM Vallá hf., er látinn. Hann lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans í fyrrinótt. Hann var 75 ára að aldri. Víg­lund­ur var lengi for­ystumaður í sam­tök­um vinnu­veit­enda og um langt árabil einn áhrifamesti maðurinn í íslensku viðskiptalífi.

Víg­lund­ur fæddist í Reykja­vík 19. sept­em­ber 1943. For­eldr­ar hans voru Þor­steinn Þor­steins­son fisksali og Ásdís Eyj­ólfs­dótt­ir, full­trúi á Skatt­stofu Reykja­vík­ur.

Áhrifamaður hjá iðnrekendum og í lífeyrissjóðum

Hann lauk lög­fræðiprófi frá Há­skóla Íslands vorið 1970. Hann var fram­kvæmda­stjóri og síðar stjórn­ar­formaður BM Vallá hf. frá árinu 1971 til árs­ins 2010.

Víg­lund­ur var virkur í félagsmálum. Hann var t.d. bæj­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins á Seltjarn­ar­nesi, formaður Félags íslenskra iðnrekenda um árabil og sat einnig í stjórn Verslunarráðs og Vinnuveitendasambandsins, svo dæmi séu tekin. Hann var um langt skeið stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verslunarmanna og átti einnig sæti í fjölmörgum fyrirtækjum, t.d. Íslandsbanka. Hann var varaformaður stjórnar Eimskipafélags Íslands þegar hann lést.

Gagnrýndi kolkrabbann

Áður fyrr var Víglundur einn helsti gagnrýnandi íslenska „Kolkrabbans“ svonefnda, viðskiptaveldisins í kringum Eimskipafélag Íslands.

„Umræðan um Kolkrabbann var oft á þeim nótum að hann ynni gegn samkeppni. Sjálfur hef ég í mínum rekstri hins vegar ekki vanist neinu öðru en samkeppni og veit að hana geta menn ekki keypt af sér eða lokað fyrir með bellibrögðum. Samkeppni er nauðsynleg leið til framþróunar, en menn mega samt ekki ganga of hart fram eða láta stjórnast af blindri heift gagnvart keppinautum. Stundum drepa menn keppinautinn og sjálfa sig í leiðinni,“ sagði Víglundur í samtali við Frjálsa verslun á sínum tíma.

„Auðvitað er óumdeilt að Kolkrabbinn réði miklu og í viðskiptalífinu voru valdablokkir. Talað var um helmingaskiptareglu sem byggðist á því að áður fyrr skiptu einkafyrirtækin og kaupfélögin með sér innflutningsleyfum, þegar haftastefna réði ríkjum. Illu heilli stigu menn ekki það skref að opna hagkerfið til fulls á viðreisnarárunum, það gerðist ekki fyrr en með EES-samningnum og í millitíðinni höfðum við fengið tvo áratugi sem einkenndust af óðaverðbólgu og allsherjarrugli í íslensku hagkerfi.“

Gjaldþrot BM Vallár

Stærstan hluta starfsævi sinnar var Víglundur forstjóri BM Vallár, sem stækkaði jafn og þétt. Undir lokin sjöfaldaðist stærð félagsins, m.a. með yfirtökum og samrunum og var með um 500 manns í vinnu þegar mest var árið 2007.

Með hruni bankanna og íslensku krónunnar 2008 voru örlög BM Vallár líklega ráðin og félagið fór í þrot árið 2010. Það var Víglundi mikið áfall og taldi hann sig miklum órétti beittur af hálfu Arionbanka. Hefur hann barist fyrir málstað sínum undanfarin ár og sótt til dómstóla í þeim efnum. Hélt Víglundur því fram að hans nafn hefði verið á lista innan bankakerfisins yfir þá aðila og einstaklinga sem ekki hefðu átt að fá tækifæri til að bjarga fyrirtækjum sínum eftir hrun, þótt aðrir aðilar hefðu fengið tækifæri til þess við svipaðar aðstæður.

Fjölskylda

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Víg­lund­ar er Krist­ín María Thor­ar­en­sen, skrif­stofumaður. Fyrri kona hans er Sig­ur­veig Ingi­björg Jóns­dótt­ir fv. fréttastjóri Stöðvar 2. Syn­ir Víg­lund­ar og Sig­ur­veig­ar eru Jón Þór myndatökumaður, Þor­steinn alþingismaður og fv. ráðherra og Björn sjónvarpsstjóri. Börn Krist­ín­ar, stjúp­börn Víg­lund­ar, eru Axel Örn Ársæls­son og Ásdís María Thor­ar­en­sen.