Alfreð Þorsteinsson fv. borgarfulltrúi er látinn, 76 ára að aldri.
Alfreð var um árabil einn þekktasti stjórnmálamaður okkar Íslendinga; sat lengi fyrir Framsóknarflokkinn og Reykjavíkurlistann í borgarstjórn Reykjavíkur.
Þegar Reykjavíkurlistinn náði meirihluta í borgarstjórn árið 1994 og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóri, féll í hlut Alfreðs að verða formaður stjórnar veitustofnanna Reykjavíkur, sem var sameiginleg stjórn Rafmagnsveitunnar, Hitaveitunnar og Vatnsveitunnar. Undir hans stjórn voru Rafmagnsveitan og Hitaveitan sameinuð undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur þann 1. janúar 1999 og ári síðar rann Vatnsveitan einnig inn í hið sameinaða fyrirtæki.
Sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur hafði Alfreð forystu með gríðarmklu uppbyggingarstarfi, þar sem fyrirtækið tók forystu í virkjun jarðvarma hér á landi.
Hann var um árabil forstjóri Sölunefndar varnarliðseigna og formaður knattspyrnufélasins Fram um langt árabil. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið og varð síðar heiðursfélagi þess.
Alfreð var lengi íþróttafréttamaður á Tímanum og lét knattspyrnu með Fram auk þess að þjálfa yngri flokka félagsins.
Eftirlifandi eiginkona hans er Guðný Kristjánsdóttir og dætur þeirra Lilja Dögg menntamálaráðherra og Linda Rós stjórnarráðssérfræðingur.
Milli ritstjóra Viljans og Alfreðs Þorsteinssonar var um árabil mikil vinátta og samstarf. Að leiðarlokum er þakkað fyrir það og fjölskyldu hans sendar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Alfreðs Þorsteinssonar.