Andlát: Sr. Sigurður Helgi Guðmundsson

Sr. Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi sóknarprestur og forstjóri, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði miðvikudaginn 20. febrúar, á sjötugasta og áttunda aldursári.

Sigurður fæddist á Hofi í Vesturdal í Skagafirði 27. apríl 1941, sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar, bónda og Ingibjargar Jónsdóttur, húsfreyju.

Sigurður lauk prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1957 og stúdentsprófi frá MA 1965. Hann lauk kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1970 og framhaldsnámi í kennimannlegri guðfræði og sálgæslu við Kaupmannahafnarháskóla 1976.

Sigðurður var sóknarprestur í Reykhólaprestakalli 1970-1972 og Eskifjarðarprestakalli 1972 til 1977. Jafnframt var Sigurður skólastjóri Barna- og gagnfræðaskólans á Eskifirði og skólastjóri Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar á árunum 1975-1977. Sigurður var skipaður sóknarprestur í Víðistaðaprestakalli í Hafnarfirði 1977 og starfaði þar uns hann fékk lausn frá embætti árið 2001. Sigurður var forstjóri á Umönnunar- og hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík frá 1987 til 2011 og á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík frá 1993 til 2011.

Sigurður gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var formaður Prestafélags Austurlands 1972-1974, sat í stjórn Rauða kross Íslands 1977-1982, var fulltrúi Íslands í stjórn Ellimálasambands Norðurlanda 1977-1993 og forseti samtakanna 1991-1993, formaður Öldrunarráðs Íslands 1981-1991 og sat í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra 1983-1989.

Sigurður var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 1988 og stórriddarakrossi 1997 fyrir störf að félags- og öldrunarmálum.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Brynhildur Ósk Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingi og djákni. Börn þeirra eru Sigurður Þór, Margrét og Vilborg Ólöf.