Það blása oft heldur hráslagalegir vindar um íslenskan sjávarútveg og þótt vel gangi í útgerðinni er kalt á toppnum og útgerðarmenn oft milli tanna á fólki og lengi verið í tísku að útmála þá. Af umræðunni að dæma eru fá fyrirtæki önnur en Samherji starfandi í sjávarútvegi, en það er auðvitað ekki svo og Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefur á undanförnum árum verslað fram og til baka með fyrirtæki og aflaheimildir með þeim árangri að hann stýrir nú stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins miðað við aflaheimildir og er þar að auki með mestu aflaheimildir að baki sér sem einstaklingur, samkvæmt nýlegum útreikningum sjávarútvegsblaðs Stundarinnar.
Þetta kemur kannski mörgum á óvart, þar sem Gvendur vinalausi, eins og hann var gjarnan uppnefndur hér í gamla daga, er orðinn miklu meyrari með aldrinum og varla lengur umdeildur. Hann virðist hafa breytt um taktík, hefur fengið hinn gamalreynda fjölmiðla- og almannatengslaref Ásgeir Friðgeirsson til liðs við sig, og saman stilla þeir nú strengi sína í pælingum um að breyta stjórnkerfi fiskveiða innan frá og laga það þannig að þörfum nútímans og svara um leið helstu gagnrýninni á það.
Guðmundur nýtur þess þannig að vera skjólmegin í umræðunni, þótt sífelldur stormur geysi gagnvart annarri útgerð á miðunum, og vinnur sína heimavinnu á meðan ásamt Ásgeiri sem er fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og náinn samstarfsmaður þeirra Björgólfsfeðga undanfarin ár, sannarleg þungavigt í bransanum. Athyglisvert verður að sjá hvað kemur út úr þessu samkrulli, segja reyndir menn í sjávarútvegi.