Áslaug Arna: Við verðum að ná miklu – miklu betur til þjóðarinnar

„Lífið er alls konar, Þekktur maður sagði: Allir eru með plön – en svo er maður bara kýldur á kjaftinn! Og sá maður, Mike Tyson, talaði af reynslu. Við stjórnum ekki alltaf atburðarrásinni í pólitíkinni. En þegar á reynir kemur í ljós úr hverju við erum gerð. Hvort við gefumst upp eða höldum áfram,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, iðnaðar-, háskóla- og nýsköpunarráðherra á fjölsóttum fundi ráðherra Sjálfstæðistflokksins með flokksfólki á Hilton-hótelinu við Suðurlandsbraut í dag.

Áslaug Arna sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa myndað ríkisstjórn, vitandi að samstarf ólíkra flokka kalli á málamiðlanir.

„Það er samt betra fyrir Ísland að Sjálfstæðisflokkurinn sitji við borðið og auðvitað á stærsti stjórnmálaflokkurinn með skýrasta umboðið að vera við stýrið. Einhverjir hafa sagt að það hefði verið best að kjósa núna. Vera utan stjórnar næstu árin til að skerpa á málefnunum. Ég heyri og skil hvað þið segið. Við þurfum að líta í spegil! En það er ekki lögmál að við getum ekki á sama tíma haft áhrif í ríkisstjórn.

Við ykkur vil ég segja að ég er tilbúin. Til að ná enn meiri árangri, forgangsraða og klára mál! Hrista upp í kerfinu, láta stjórnsýsluna virka, hagræða, sameina, auka jöfn tækifæri og valfrelsi. Ýta undir verðmætasköpun með áherslu á menntun og hugvit – og umhverfi sem laðar að kraftmikið fólk og fyrirtæki, stór og smá. Ég er tilbúin til að styðja ríkisstjórnina til góðra verka. Til að ná betri tökum á efnahagsmálunum. Lækka verðbólgu og vexti. Svo verðum við auðvitað að koma í gegn áherslum okkar í orkumálum og málefnum útlendinga. Síðast en ekki síst er ég tilbúin til að gera það sem gleymist stundum. Ég mun áfram fara um landið, tala við sjálfstæðisfólk um allt land, hlusta á ykkur, hitta nýja kjósendur, styrkja flokksstarfið, næstu kynslóðir og efla hugmyndafræðina okkar.

Við getum gert betur! Og við verðum að ná miklu – miklu betur til þjóðarinnar – því þegar öllu er á botninn hvolft þá er okkar eina lokamarkmið að ná árangri fyrir Ísland. Þess vegna verðum saman að stækka og efla Sjálfstæðisflokkinn. Tryggja að hann verði áfram kjölfestan í íslensku samfélagi líkt og hann hefur verið í 94 ár, 10 mánuði og 19 daga! Við gerum það með því að láta aldrei kýla okkur niður. Við stöndum saman – sterk og reiðubúin til forystu.“