Ást og umhyggja fyrir náttúrunni hefur gengið í ættir

Listakonan María Rún Vilhelmsdóttir málar bæði og ljósmyndar. Hún sat fyrir á yngri árum.

MENNING: Nú um helgina opnar María Rún Vilhelmsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu RÚN upp málverkasýninguna UMBROT á veitingastaðnum Energia í Smáralind. Mun sýningin standa yfir út marsmánuð og verða verkin bæði til sýnis og sölu.

Hvenær byrjaðir þú að mála?

„Ég byrjaði að mála á striga árið 2006, ég tók síðan langa pásu og fór að snúa mér að grafískri list og ljósmyndun. Ég hóf svo að mála aftur árið 2016 og sameinaðist hópi yndislegra kvenna sem mynda ART11 teymið. Stúdíóin okkar eru staðsett í Auðbrekku í Kópavogi og þar njótum við félagsskapar, stuðnings og gagnrýni hverrar annarrar.“

Ertu lærð?

„Ég er sjálflærð fyrir utan nokkra myndlistaráfanga í framhaldsskóla. En námskeið í abstrakt er á listanum mínum á þessu ári, það er alltaf gott að láta hrista aðeins upp í því fari sem maður er í. Ég hef frá byrjun verið mikið í abstrakt en hver veit hvort ég færi mig yfir í eitthvað annað í framtíðinni.“

Hver var innblásturinn þinn þegar þú skapaðir UMBROT seríuna ?

„Innblásturinn er sóttur til náttúrunnar og þá sérstaklega vatns í ýmsum myndum, flæðandi eða frosið. Tengingin við náttúruna er mjög sterk í mér, það hefur gengið í ættir ást og umhyggja fyrir náttúrunni. Hjördís Georgsdóttir, amma mín, var listakona og var ávallt að tjá ást sína á Íslandi í myndum sínum. Prýða myndir hennar af íslenskum fossum heimili fjölskyldunnar. Systir mín er einnig listmálari og deilir hún með mér vinnustofu.

Það er í eðli mannsins að dragast að vatni. Maður getur horft í strauminn endalaust og hlustað á róandi niðinn og gleymt sér algjörlega. Sama hvort það er foss, lækur eða straumþung á.  Vatnið tekur á sig margar myndir og það sem er merkilegast af öllu er að vatnið á jörðinni er einn fasti. Þetta er síendurtekin hringrás, krafturinn í vatninu á sér engin mörk.“

Er þetta framtíð þín, að mála?

„Eftir að ég hóf aftur að mála get ég ekki ímyndað mér að hætta því, ég hef mikla þörf fyrir að skapa. En ég býst við því að ég reyni einnig að auka við ljósmyndunina að nýju því það á líka mjög vel við mig. Á yngri árum var ég hinum megin við linsuna og það kenndi mér ótrúlega margt þegar það koma að því að taka sjálf myndir.“

María Rún heldur uppi síðunni RÚN / List og Ljósmyndun á Facebook, einnig er hægt að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið mariarunlist@gmail.com.