Átti að heita Ingimundur, en varð Bjarni: „Hef stoltur borið þetta nafn síðan“

Fimmtíu ár eru í dag liðin frá því að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, og kona hans, Sigríður Björnsdóttir, og barnungur dóttursonur þeirra, Benedikt Vilmundarson létust í eldsvoða að Þingvöllum er svonefnt Konungshús brann, 10.júlí 1970. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lagði af þessu tilefni blómsveig að minningarsteini sem stendur þar sem húsið stóð en forseta Íslands, ríkisstjórn og þingmönnum var boðið til athafnarinnar auk afkomenda forsætisráðherrahjónanna. Minnisvarðinn var reistur ári eftir brunann.

Hér fer á eftir ávarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins við minningarathöfnina í dag:

Forseti Íslands, forsætisráðherra, þingmenn, kæru félagar, frændfólk og vinir!

Við erum hér saman komin til þess að minnast þess að í dag eru 50 ár liðin frá þeirri hörmungarnóttu að nafni minn og afabróðir, dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigríður Björnsdóttir kona hans og Benedikt Vilmundarson, 4 ára dóttursonur þeirra, fórust í eldsvoða hér á Þingvöllum.

Þingvellir eru helgur staður í huga þjóðarinnar, því það er hér sem við Íslendingar urðum þjóð. Það er hér, sem við gengumst undir ein lög og settum á fót þjóðveldi — áttum engan konung nema lögin — og gengumst síðar undir einn sið til þess að slíta hvorki lög né frið. Og það var hér, á þessum helga stað, þúsund árum síðar, sem við endurreistum lýðveldið 1944. Hér á Þingvöllum erum við enn, aftur og alltaf.

Ég fullyrði að fáir áttu meiri þátt í lýðveldisstofnuninni en Bjarni Benediktsson, sem var óþreytandi í baráttunni fyrir fullveldi Íslands og sjálfstæði, þegar ýmsir vildu draga lýðveeldisstofnunina. Það náði ekki einvörðungu til hinnar lagalegu hliðar, sem þó var honum sérstaklega hugleikin, heldur einnig til efnahagslegs styrks og menningarlegrar reisnar, stjórnmálalegs stöðugleika, mannlegrar fjölbreytni og frelsis hvers og eins, sem hann vissi að landi og þjóð væru nauðsynleg til þess að öðlast sjálfstæði og varðveita það.

Katrin Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði blómsveig að minnismerki um forsætisráðherrahjónin heitin og barnabarn þeirra á Þingvöllum í dag.

— — —
Bjarni var 62 ára er hann lést, virtur lögspekingur, reyndur stjórnmálamaður, snarpur ritstjóri Morgunblaðsins og þjóðarleiðtogi.

Hann var fæddur 30. apríl 1908 í Reykjavík, sonur hjónanna Benedikts Sveinssonar þingforseta og Guðrúnar Pétursdóttur frá Engey, alinn upp á stóru og fjörlegu menningarheimili við Skólavörðustíginn. Hann var einstaklega góðum gáfum gæddur; greindur, íhugull og alvörugefinn. Hann varð stúdent liðlega 18 ára gamall, 22 ára lauk hann lögfræðiprófi með hæstu einkunn við Háskóla Íslands, en eftir framhaldsnám í stjórnlagafræði, aðallega í Berlín, varð hann prófessor í lögum við Háskóla Íslands árið 1930, aðeins 24 ára gamall og þótti skjótt fremsti stjórnlagafræðingur þjóðarinnar, snjall og afkastamikill fræðimaður. Hann gegndi því starfi til hausts 1940, þegar hann varð borgarstjóri, en 1947 var hann skipaður utanríkis- og dómsmálaráðherra og lét þá af borgarstjórastörfum. Hann átti síðan sæti í ríkisstjórn til æviloka, lengst allra íslenskra ráðherra, fyrir utan tímabilið frá 1956 til 1959, en þá var hann ritstjóri Morgunblaðsins meðfram þingstörfum og rak einhverja hörðustu stjórnarandstöðu lýðveldissögunnar. Hann varð fyrst forsætisráðherra 1961 í forföllum Ólafs Thors og síðan frá 1963 til dauðadags.

26 ára gamall kvæntist Bjarni Valgerði Tómasdóttur, en hún lést úr fóstureitrun innan við hálfu ári síðar. Hann syrgði hana mjög og sótti sér styrk í kristinni trú og varð mjög kirkjurækinn upp frá því. Síðar gekk hann að eiga Sigríði Björnsdóttur og varð þeim fjögurra barna auðið; Björns, Guðrúnar, Valgerðar og Önnu.
— — —
Starfstími dr. Bjarna í þágu þjóðarinnar voru miklir umbrotatímar í sögu hennar. Hann var borgarstjóri í hernáminu, svo það hefur verið mikil eldskírn, en um leið stóð hann fyrir mestu framfaraframkvæmdum í sögu landsins með hitaveitunni í Reykjavík. Hann lét sig þjóðmálin þó ekki minnu skipta og ég fullyrði að enginn Íslendingur hafi þá verið duglegri baráttumaður fyrir því að Ísland ætti og yrði að verða lýðveldi, líkt og sambandssáttmálinn frá 1918 heimilaði.

Um það fjallaði hann í snjallri ræðu á landsfundi okkar sjálfstæðismanna — einmitt hér á Þingvöllum — árið 1943, sem var birt í Morgunblaðinu og síðar gefin út í sérbæklingi og vakti þjóðarathygli. Þar er vel farið yfir aðdragandann og röksemdir fyrir lýðveldisstofnuninni ári síðar. Þessi ræða er athyglisverð út frá sögulegu sjónarmiði, en hið merkilega er, að röksemdirnar eiga enn við og flest af því, sem hann sagði um land, þjóð og ríki okkar, á engu síður erindi við okkar daga. Það gleður mig því að greina frá því að í dag endurbirtir Sjálfstæðisflokkurinn hana á vef sínum, honum til heiðurs og okkur til áminningar.

Að síðari heimstyrjöldinni lokinni blasti við nýtt ríki í nýjum heimi og Bjarni efaðist aldrei um að þar yrðu Íslendingar að skipa sér í sveit með vestrænum lýðræðisríkjum. Hann beitti sér fyrir þeirri erfiðu og umdeildu ákvörðun að Íslendingar skyldu ganga í Atlantshafsbandalagið og þá var sjálfsagt harðast að honum sótt. Bjarni lét engan bilbug á sér finna, sótti fram af þeirri rökfestu og þunga, sem honum var í blóð borinn, og hafði sigur. Bæði á Alþingi og í þeim kosningum, sem á eftir fylgdu.

— — —
Þennan dag fyrir fimmtíu árum stóð til að skíra tæplega sex mánaða dreng í Garðahreppi. Foreldrar mínir höfðu ákveðið að skíra mig í höfuðið á móðurafa mínum, sem hét Ingimundur, en svo bárust tíðindin af andláti afabróður míns, Bjarna Benediktssonar. – Ég hef stoltur borið þetta nafn síðan.

Við stöndum einmitt hér við minningarstein nafna míns, konu hans og litla dóttursonar þeirra. En bautasteinn dr. Bjarna Benediktssonar er miklu stærri og hann mun standa jafnlengi og Ísland er byggt. Sá bautasteinn er lýðveldið okkar, byggt á lögum og rétti; lýðveldi frjálsrar og fullvalda þjóðar, sem ekki hikar við að skipa sér í fylkingu vestræns lýðræðis og vill verja, varðveita og byggja upp það, sem okkur kom í arf og ber að skila til komandi kynslóða.

Guð blessi minningu Bjarna, Sigríðar og Benedikts litla.