Bolli Kristinsson, athafnamaður, kenndur við verslunina Sautján, staðfesti að hafa sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum, í Bítinu í morgun. Hann segir ástæðuna aðallega óvissuna í kringum 3ja orkupakka Evrópusambandsins.
„Við vitum aldrei hvar þetta endar,“ segir hann og líkir Orkupakkanum við að skrifa undir óútfylltan víxil. „Ég er ósáttur með uppkaup á bújörðum erlendra aðila, segir Bolli og bendir á að næst verði farið í kalda vatnið, og þar með jafnvel Gvendarbrunnana íslensku.
„Sjálfstæðisflokkurinn er á villigötum með núverandi forystu, fylgið hefur minnkað mikið á sl. árum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var ákveðið að samþykkja ekki orkupakkann, en forystan hefur ákveðið að sniðganga þá samþykkt, án þess að gefa upp ástæðu,“ segir Bolli, en hann hefur verið harður stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins um langt árabil og öflugur við fjáröflun flokksins.
Óútskýrður snúningur Bjarna Ben
Bjarni hafi fullyrt fyrir ári að það kæmi ekki til greina að samþykkja pakkann en núna hafi honum snúist hugur án skýringar. „Hugsanlega verðum við neydd til að setja þennan streng, og við viljum ekki virkja meira en náttúran þolir.“ Bolli er ekki sáttur við þau svör sem hann hefur fengið, en hann hefur skrifað Sjálfstæðisflokknum nokkur bréf.
Aðspurður segir Bolli: „Auðvitað er flokkurinn að liðast í sundur. Það er alveg skýrt. Ég held að ef kosið yrði í dag þá færum við í 15-18% fylgi. Ég vil að forystan líti í eigin barm og skoði málið. Maður eins og ég, ég vil ekkert frekar en að ganga í flokkinn minn aftur. En ég geri það ekki eftir þessum forsendum. Ég er að senda skýr skilaboð um að ég læt ekki bjóða mér þetta. Þeir eru farnir langt í burtu frá öllum helstu stefnumálum flokksins.“
Bolli tekur ekki mark á því sem ritari flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, segir að verið sé að horfa í baksýnisspegilinn með því að hafna þriðja orkupakkanum. „Það er bara rugl að við gömlu kallarnir í flokknum séum eitthvað afturhald. Óvissan er bara of mikil. Þó ég sé kapítalisti, þá vil ég að orkan, fiskimiðin og grunnþjónustan sé í þjóðareign.“
Hann segir mikil tækifæri í þessum málum sem eigi að nýta í að skapa störf og verðmæti innanlands. Lokaorð hans í þættinum urðu: „Íslandi allt“.