Bælir gras með bókum til að verja trjáplönturnar

„Gras er helsti óvinur lítilla trjáplanta. Ég er búinn að reyna margar leiðir til að hemja grasvöxt við plönturnar mínar en grasið hefur drepið allmargar trjáplöntur hjá mér,“ segir Áskell Þórisson, fv. ritstjóri Bændablaðsins, sem stendur fyrir metnaðarfullri skógrækt undir Akrafjalli.

Á þeim slóðum vex gras með eindæmum vel og hefur Áskell brugðið á ýmis ráð til að hamla vextinum svo unnt sé að koma græðlingnum upp í að verða tré.

„Nefna má tímarit sem ég raða umhverfis plönturnar en nú er ég kominn með bækur — sem annars hefðu farið á haugana. Bækurnar fékk ég hjá ágætum bókaútgefanda. Ef allt heppnast þá verða þessar birkiplöntur vel lesnar þegar tímar líða fram,“ segir Áskell.

„Þetta eru einkum skáldsögur – sumarhúsarómanar og slíkt — en inn á milli má líka finna ágætar ævisögur.“