„Ég tilkynni hér með úrsögn mína úr Miðflokknum. Ég lýsi því jafnframt yfir að ég mun standa við kjör mitt með framboði M-lista og sitja áfram sem fyrsti varamaður framboðsins í borgarstjórn Reykjavíkur til loka yfirstandandi kjörtímabils.“
Þannig hljóðar óvænt tilkynning sem Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, birti á fésbókinni í dag, en hann er varamaður borgarfulltrúans Vigdísar Hauksdóttur. Greinilega hefur kastast í kekki milli þeirra, því Baldur segist í yfirlýsingu sinni hafa fengið nóg:
„Sveitarstjórnarmenn eru sjálfstæðir í störfum sínum og ég hyggst rækja skyldur mínar gagnvart kjósendum mínum af sömu heilindum og einlægni og ég hef gert frá upphafi. Ekki er þörf á að tíunda ástæður ákvörðunar minnar að öðru leyti en því að ég hef í störfum mínum í borgarstjórn ítrekað orðið vitni að starfsháttum og framkomu undir merkjum Miðflokksins sem ég get með engu móti sætt mig við.“
Baldur vildi engu bæta við þessa yfirlýsingu sína, þegar Viljinn leitaði til hans áðan.