Bergþór aftur orðinn formaður

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, er aftur orðinn formaður Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Hann tók við formennsku á fundi nefndarinnar í dag, eftir atkvæðagreiðslu þar sem fulltrúar annarra flokka sátu hjá og virtu þannig samkomulag flokkanna á þingi um skiptingu í nefndir og formennsku í þeim.

Bergþór, sem fékk eigið atkvæði í dag og einnig stuðning flokksbróður síns, Karls Gauta Hjaltasonar, var formaður nefndarinnar í fyrra þar til Klausturmálið kom upp. Hann vék þá tímabundið til hliðar og tók Jón Gunnarsson við formennskunni.

Jón er nú aftur orðinn varaformaður nefndarinnar.

Segja má að þar með sé siðanefndarmálum lokið gagnvart þingmönnum, því Bergþór var fyrr á árinu talinn hafa brotið siðareglur Alþingis með ummælum sínum á Klaustri auk þess sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, var einnig talin brotleg við siðareglur með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.

Bæði Bergþór og Þórhildur Sunna hafa nú tekið við formennsku í nefndum og siðanefnd þingsins lokið störfum.