Birna Einarsdóttir hefur óskað eftir því að láta af störfum sem bankastjóri Íslandsbanka og hafa stjórn bankans og Birna gert samkomulag um starfslok hennar. Frá þessu var greint í tilkynningum frá bankanum sem sendar voru í nótt.
Þá hefur stjórn bankans ráðið Jón Guðna Ómarsson í starf bankastjóra. Jón Guðni hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans frá árinu 2000 og gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármála bankans frá 2011. Jón Guðni mun áfram gegna stöðu framkvæmdastjóra fjármála Íslandsbanka uns ráðið hefur verið í þá stöðu.
„Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Birnu Einarsdóttur fyrir mörg farsæl ár í starfi hjá bankanum. Birna hefur byggt upp sterkan banka og öfluga liðsheild sem við munum áfram búa að. Hún hefur að sönnu verið hreyfiafl og haldið gildum um jafnrétti, fjölbreytileika og sjálfbærni á lofti innan sem utan fyrirtækisins. Við óskum Birnu velfarnaðar í framtíðinni,“ er haft eftir stjórnarformanninum Finni Árnasyni.
Sjálf segir Birna í yfirlýsingu:
„Ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem bankastjóri Íslandsbanka með hagsmuni bankans að leiðarljósi svo ró geti myndast vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands. Með því axla ég ábyrgð á mínum þætti málsins. Umræðan hefur verið óvægin og ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um afsögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum.
Það er með miklum trega sem ég yfirgef Íslandsbanka enda hef ég starfað hjá bankanum og forverum hans í um 30 ár. Starfsævi mín hefur nánast öll verið helguð bankanum og okkur hefur tekist að byggja upp eitt öflugasta fyrirtæki landsins með einstökum starfsmannahópi. Ég hef eignast marga góða vini bæði í hópi starfsfólks og viðskiptavina. Sátt fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands snýr eingöngu að þessu eina verkefni, að öðru leyti hefur ferill minn hjá bankanum verið farsæll.
Undir minni stjórn, sem bankastjóri, hefur eigið fé bankans aukist um næstum 150 milljarða auk þess sem ríflega 110 milljarðar hafa verið greiddir í arð til hluthafa.
Okkur hefur tekist að ná fram fjölda sigra á fjármálamarkaði með mannleg gildi að leiðarljósi. Ég kveð bankann með söknuði en sátt við mitt verk. Ég óska öllu mínu samstarfsfólki góðs gengis og vona innilega að með þessu skapist friður í kringum fyrirtækið og fólkið sem mér þykir svo vænt um.“