Bjarni tekur við Iceland Seafood

Bjarni Ármannsson, nýr forstjóri Iceland Seafood.

Stjórn Iceland Seafood hefur ráðið Bjarna Ármannsson, fv. forstjóra Glitnis, sem forstjóra. Tekur hann við starfinu af Helga Antoni Eiríkssyni.

Í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallarinnar segir að Bjarni, sem verið hefur stjórnarformaður Iceland Seafood frá því í fyrra, hætti nú í stjórninni, en hann er einn stærsti eigandi félagsins.

„Ég er afar spenntur yfir því að hafa verið ráðinn í þetta starf,“ segir Bjarni, en undir hatti IS starfa níu dótturfélög í mörgum löndum og er markmiðið að skrá félagið á aðallista Kauphallarinnar síðar á þessu ári.

Benedikt Sveinsson tekur við stjórnarformennsku, en hann hefur átt sæti í stjórn félagsins um árabil.