Björg Eva hættir hjá Vinstri grænum og tekur við Landvernd

Björg Eva Erlendsdóttir verður nýr framkvæmdastjóri Landverndar og hefur hún störf í október. Stjórn Landverndar samdi við Björgu Evu, eftir að Auður Önnu- Magnúsdóttir sagði starfi sínu lausu í vor.

Á vef Landverndar segir að stjórn félagsins hafi horft til þess að Björg Eva hafi víðtæka reynslu af rekstri félagasamtaka, reynslu úr fjölmiðlum og úr alþjóðastarfi á norrænum vettvangi. Nú síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri Vinstri grænna.

„Stjórnin metur einnig mikils að í ráðningaferlinu sýndi Björg Eva eldmóð fyrir málefnum náttúru og umhverfisverndar, enda hefur hún tekið þátt í náttúruverndarbaráttu lengst af ævinnar.

Framkvæmdastjóri  Landverndar ber ábyrgð á og stýrir daglegum rekstri og fjármálum ásamt því að annast fjáröflun samtakanna og gerð fjárhagsáætlana og fjárhagsskýrslna. Þá kemur framkvæmdarstjóri fyrir hönd Landverndar í opinberri umræðu, gagnvart þriðja aðila og dómsstólum,“ segir þar ennfremur.