Björk heiðursborgari Reykjavíkur og fær styttu af sér í stað hefðbundinnar athafnar

Borgarráð samþykkti í dag að útnefna Björk Guðmundsdóttur sem heiðursborgara Reykjavíkurborgar. Björk er sjöundi Reykvíkingurinn sem hlýtur þennan heiður og mun myndlistarkonan Gabríela Friðriksdóttir gera Bjarkar- styttu.

Á vef Reykjavíkurborgar segir um útnefninguna:

„Björk Guðmundsdóttir er tónlistarkona á heimsmælikvarða og einstök í sinni röð. Hún hefur verið áberandi í íslensku og alþjóðlegu lista- og menningarlífi um fjögurra áratuga skeið, sem söngkona, tónskáld, plötuútgefandi og leikkona en einnig frumkvöðull og baráttukona á ýmsum sviðum. Hún er sá íslenski listamaður sem náð hefur mestri frægð utan landsteinanna en hún er ekki bara þekkt fyrir hæfileika sína og list, heldur einnig einstakan persónuleika sem skín í gegnum öll hennar verk. Fáir ef nokkrir hafa lyft nafni Reykjavíkur meira en Björk.

Björk fæddist og ólst upp í Reykjavík. Tónlistarferillinn hófst strax um ellefu ára aldurinn þegar hún hóf píanónám og aðeins ári síðar, eða árið 1977, kom út platan Björk, þar sem hún söng meðal annars þekkt íslensk barnalög. Hún var í hljómsveitinni Tappi tíkarrass en árið 1983 stofnaði hún ásamt fimm öðrum hljómsveitina KUKL, sem síðan þróaðist út í hljómsveitina Sykurmolarnir sem færði Björk heimsfrægð aðeins 21 árs gamalli.

Glæstur og fjölbreyttur ferill

Sveitin hætti störfum árið 1992 og tók þá við blómlegur sóló- ferill sem hófst með plötunum Debut, Post og Homogenic. Þeim fylgdi hún eftir á nýrri öld með plötunum Vespertine, Medúlla, Volta, Biophilia, Vulnicura, Utopia og nú síðast Fossora, sem kom út árið 2022 og hafa verk hennar ávallt notið hylli um víða veröld. Má þar nefna að nokkrar af plötum Bjarkar hafa komist á topp 20 lista bandaríska Billboard listans og að 22 lög eftir hana hafa komist á topp 40 listann í Bretlandi, þar á meðal lögin It´s Oh So Quiet, Army of Me og Hyperballad, sem öll náðu á topp tíu listann þar í landi. Meðal ótal verðlauna og viðurkenninga hennar eru Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, fimm BRIT verðlaun, 16 tilnefningar til Grammy verðlauna og árið 2015 var hún á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu einstaklinga veraldar. Björk hefur leikið í nokkrum kvikmyndum og árið 2000 kom út kvikmynd Lars Von Trier, Dancer in the Dark, með Björk í aðalhlutverki. Var hún valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes það ár auk þess sem hún fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir lagið I‘ve Seen It All, sem samið var fyrir Dancer in the Dark. Yfirlitssýning um verk Bjarkar var sett upp í MoMA safninu (Museum of Modern Art) í New York, árið 2015.

Búseta í Reykjavík styrkur í listsköpun

Auk eigin verka hefur Björk verið í forystu kynslóðar reykvísks listafólks sem oft er kennd við útgáfufyrirtækið Smekkleysu, sem braut blað á margan hátt. Smekkleysukynslóðin sýndi fram á að búseta í Reykjavík væri ekki takmörkun heldur gæti verið styrkur í listsköpun á alþjóðlegu sviði og listræn sýn Bjarkar, sjálfstæði og kjarkur við að fara sífellt nýjar leiðir í framsækinni listsköpun hefur gefið tón sem mörg hafa fylgt, jafnt í tónlist, annarri listsköpun og á fjölmörgum sviðum öðrum. Mikill fjöldi listafólks og frumkvöðla úr íslensku menningar- og atvinnulífi hefur vísað til Bjarkar sem innblásturs og fyrirmyndar.

Stytta í stað hefðbundinnar athafnar

Samþykkt var að í stað hefðbundinnar athafnar, eins og þegar heiðursborgarar eru útnefndir, yrði Gabríela Friðriksdóttir myndlistarkona fengin til að gera Bjarkar-styttu. Gabríela mun vinna verkið og gera áætlun um kostnað og tillögu að staðsetningu í samráði við Listasafn Reykjavíkur. Staðsetningin kemur til ákvörðunar í umhverfis- og skipulagsráði og menningar- og íþróttaráði í samræmi við samþykktir um list í opinberu rými. Tíma- og fjárhagsáætlun verður lögð fyrir borgarráð þegar hún liggur fyrir.“

Aðrir heiðursborgarar Reykjavíkur:

séra Bjarni Jónsson (1961)

Kristján Sveinsson augnlæknir (1975)

frú Vigdís Finnbogadóttir (2010)

Erró (Guðmundur Guðmundsson, 2012)

Yoko Ono (2013)

Friðrik Ólafsson stórmeistari (2015)

Þorgerður Ingólfsdóttir tónlistarkennari og kórstjóri (2018).