Björn Brynjúlfur tekur við af Svanhildi Hólm

Viðskiptaráð Íslands hefur ráðið Björn Brynjúlf Björnsson sem framkvæmdastjóra og tekur hann við starfinu í vor. Sem kunnugt er, hefur Svanhildur Hólm Valsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs verið skipuð sendiherra Íslands í Washington frá hausti komanda.

Björn er framkvæmdastjóri og stofnandi Moodup, hugbúnaðarfyrirtækis sem mælir starfsánægju fyrir vinnustaði. Áður starfaði hann sem efnahags- og rekstrarráðgjafi, hagfræðingur Viðskiptaráðs, starfsmaður Credit Suisse og ráðgjafi hjá McKinsey & Company. Björn er hagfræðingur að mennt með meistaragráðu frá University of Oxford.

Hann er sonur alnafna síns, Björns Brynjúlfs Björnssonar kvikmyndagerðarmanns og Hrefnu Haraldsdóttur. Meðal systkina hans er Birta, fréttakona á RÚV.

Björn hefur störf hjá Viðskiptaráði þann 1. maí næstkomandi.

Björn segir verkefnið leggjast vel í sig: „Ég hlakka til að mæta aftur til Viðskiptaráðs og vinna þar að jákvæðum breytingum fyrir íslenskt samfélag. Á síðustu árum hef ég öðlast fjölþætta sýn á rekstrarumhverfi fyrirtækja í gegnum störf mín sem frumkvöðull og ráðgjafi, sem verður gott veganesti á þeirri vegferð. Innan raða Viðskiptaráðs má finna breiðan hóp fyrirtækja með reynslumikla stjórnendur. Það verður heiður að starfa með þessu fólki auk stjórnvalda, stjórnsýslu og fleiri aðila.“

Andri Þór Guðmundsson, nýr formaður Viðskiptaráðs, segist hlakka til samstarfsins: „Við hjá Viðskiptaráði erum stolt af því að hafa fengið Björn til liðs við okkur. Hann þekkir vel til starfa ráðsins auk þess að hafa djúpa þekkingu á efnahagsmálum. Reynsla hans og hæfileikar munu efla ráðið sem hreyfiafl framfara fyrir íslenskt atvinnulíf og þjóðfélag. Með Björn í forystu verðum við vel í stakk búin til að styðja við heilbrigt og kraftmikið atvinnulíf, sem er undirstaða framfara og bættra lífskjara.“