Borgarstjóri í vanda: Algjört afhroð framsóknar í borginni

Forsætisráðherrann er ekki eini stjórnmálamaðurinn sem glímir við vondar fylgiskannanir þessa dagana, borgarstjórinn í Reykjavík er jafnvel í enn verri stöðu og ný skoðanakönnun Maskínu sýnir algjört afhroð Framsóknarflokksins í borginni og lítinn stuðning við Einar Þorsteinsson sem nýjan borgarstjóra.

Sjálfstæðisflokkurinn var stærsti flokkurinn í kosningunum árið 2022, fékk 24,5% atkvæða og sex borgarfulltrúa. Óvæntur sigur Framsóknarflokksins undir forystu Einars Þorsteinssonar vakti þó mesta athygli í þeim kosningum; Framsókn fékk þá 18,7% fylgi og fjóra borgarfulltrúa.

Í kjölfarið gengu Einar og Framsókn til liðs við fallinn meirihluta Dags B. Eggertssonar og þeir höfðu svo skipti á embættum í upphafi ársins, þar sem Einar varð borgarstjóri og Dagur formaður borgarráðs.

Óhætt er að segja að könnun Maskínu sýni fylgishrun Framsóknar; flokkurinn mælist nú aðeins með 4% fylgi og er tæpur á að ná inn einum manni. Frá síðustu könnun í nóvember hefur Framsókn aðeins bætt við sig einu prósentustigi, þótt borgarstjórastóllinn hafi komið í hlut flokksins í millitíðinni.

Samfylkingin mælist stærst flokka í borginni með 26% fylgi, þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 23%, Píratar fengju 12%, Viðreisn 9%, Sósíalistaflokkurinn 8%, Flokkur fólksins 7%, Miðflokkurinn 7% og VG 4%.

Í könnuninni var spurt um ánægju eða óánægju með störf borgarstjórans, Einar Þorsteinssonar og kom í ljós að 20% borgarbúa eru ánægð með störf hans, mest er ánægjan með hann í miðborg Reykjavíkur og Vesturbænum.