Borgarstjórn Reykjavíkur reis úr sætum í minningu Alfreðs Þorsteinssonar

Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar minntist Alfreðs Þorsteinssonar fyrrum borgarfulltrúa sem lést þann 27. maí sl. á fundi borgarstjórnar í vikunni.

Í minningarræðu sinni fór Pawel yfir feril Alfreðs hjá Reykjavíkurborg. 

„Al­freð fædd­ist í Reykja­vík 15. fe­brú­ar 1944 og stundaði nám í Austurbæjarskóla og Kenn­ara­skóla Íslands.

Al­freð var blaðamaður við dag­blaðið Tím­ann og var for­stjóri Sölu varn­ar­liðseigna 1977-2003. Hann var vara­borg­ar­full­trúi fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn 1970-71 og 1986-94 og borg­ar­full­trúi 1971-1978 og aft­ur 1994-2006.

Á vett­vangi borgarstjórnar sinnti Al­freð margskonar trúnaðarstörfum. Hann var forseti borgarstjórnar um tíma, sat einnig lengst af í borgarráði og var formaður ráðsins 2003-2004.

Alfreð sat lengi í fræðsluráði, heil­brigðisráði og stjórn Inn­kaupa­stofn­un­ar þar sem hann gengdi formennsku á árunum 1994-98. Hann átti sæti í um­ferðar­nefnd, var formaður stjórn­ar Veitu­stof­nanna og stjórn­ar­formaður Orku­veitu Reykja­vík­ur til ársins 2006.  Hann sat einnig í félagsmálaráði og gegndi formennsku í hverfisráði Breiðholts.

Þá var Al­freð formaður stjórn­ar Línu-Nets, var fulltrúi borgarstjórnar í stjórn Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna Reykja­vík­ur­borg­ar 2006-2010 og var formaður lengst af.

Al­freð æfði og keppti í knatt­spyrnu með Fram á barns- og unglings­ár­um og þjálfaði síðan yngra flokka fé­lags­ins um skeið. Hann var formaður Fram 1972-76 og 1989-94, sat í stjórn ÍSÍ 1976-86 auk þess að gegna ýms­um öðrum trúnaðar­störf­um fyr­ir íþrótta­hreyf­ing­una. Al­freð var jafn­framt einn af heiðurs­fé­lög­um Fram og ÍSÍ.“

Pawel sendi síðan fjölskyldu og vinum Alfreðs innilegar samúðarkveðjur fyrir hönd borgarstjórnar og þakkaði fyrir framlag hans í þágu borgarinnar.

Borgarstjórn reis síðan úr sætum til að votta virðingu sína.