Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar minntist Alfreðs Þorsteinssonar fyrrum borgarfulltrúa sem lést þann 27. maí sl. á fundi borgarstjórnar í vikunni.
Í minningarræðu sinni fór Pawel yfir feril Alfreðs hjá Reykjavíkurborg.
„Alfreð fæddist í Reykjavík 15. febrúar 1944 og stundaði nám í Austurbæjarskóla og Kennaraskóla Íslands.
Alfreð var blaðamaður við dagblaðið Tímann og var forstjóri Sölu varnarliðseigna 1977-2003. Hann var varaborgarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn 1970-71 og 1986-94 og borgarfulltrúi 1971-1978 og aftur 1994-2006.
Á vettvangi borgarstjórnar sinnti Alfreð margskonar trúnaðarstörfum. Hann var forseti borgarstjórnar um tíma, sat einnig lengst af í borgarráði og var formaður ráðsins 2003-2004.
Alfreð sat lengi í fræðsluráði, heilbrigðisráði og stjórn Innkaupastofnunar þar sem hann gengdi formennsku á árunum 1994-98. Hann átti sæti í umferðarnefnd, var formaður stjórnar Veitustofnanna og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur til ársins 2006. Hann sat einnig í félagsmálaráði og gegndi formennsku í hverfisráði Breiðholts.
Þá var Alfreð formaður stjórnar Línu-Nets, var fulltrúi borgarstjórnar í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar 2006-2010 og var formaður lengst af.
Alfreð æfði og keppti í knattspyrnu með Fram á barns- og unglingsárum og þjálfaði síðan yngra flokka félagsins um skeið. Hann var formaður Fram 1972-76 og 1989-94, sat í stjórn ÍSÍ 1976-86 auk þess að gegna ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna. Alfreð var jafnframt einn af heiðursfélögum Fram og ÍSÍ.“
Pawel sendi síðan fjölskyldu og vinum Alfreðs innilegar samúðarkveðjur fyrir hönd borgarstjórnar og þakkaði fyrir framlag hans í þágu borgarinnar.
Borgarstjórn reis síðan úr sætum til að votta virðingu sína.