Breytingar í yfirstjórn Samtaka atvinnulífsins

Ásdís Kristjánsdóttir, sem áður gegndi starfi forstöðumanns efnahagssviðs SA, hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og tekur við af Hannesi G. Sigurðssyni sem gegnt hefur starfinu frá árinu 1991.

Þetta kemur fram á vef samtakanna. Þar segir að Hannes muni áfram gegna mikilvægu hlutverki innan samtakanna sem ráðgjafi stjórnar og framkvæmdastjórnar. 

„Við þökkum Hannesi fyrir afburða gott og árangursríkt starf í þágu íslensks atvinnulífs og samfélags sem aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann hefur markað djúp spor í þróun íslensks vinnumarkaðar og kjararannsókna sem burðarás hjá VSÍ og SA í 35 ár,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

„Við fögnum því að fá að njóta krafta hans áfram.  Ásdís Kristjánsdóttir tekur nú við stöðu hans en ásamt henni fáum við inn fleira öflugt fólk sem eru þær Anna Hrefna Ingimundardóttir og Védís Hervör Árnadóttir. Þá verður til ný staða í miðlun og stafrænum lausnum en með því viljum við leggja áherslu á nýtingu stafrænna lausna til þess að auka gagnsæi og bæta upplýsingamiðlun til félagsmanna um land allt. Framundan eru verulegar áskoranir fyrir íslenskt atvinnulíf. Með þessum ráðningum styrkist enn frekar öflugt teymi SA og þjónusta við félagsmenn okkar hringinn í kringum landið er aukin.“

Anna Hrefna og Védís Hervör ráðnar

Anna Hrefna Ingimundardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður efnahagssviðs og tekur  við af Ásdísi. Þá hefur Védís Hervör Árnadóttir verið ráðin sem miðlunarstjóri SA, sem er ný staða innan samtakanna, og mun leiða stefnumörkun í markaðs- og miðlunarstarfi og styrkja stafræna þróun samtakanna.

Ásdís Kristjánsdóttir hefur starfað sem forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins undanfarin sex ár og byggt sviðið upp frá grunni. Ásdís hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, m.a sem forstöðumaður greiningardeildar Arion banka og hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu. Hún hefur haldið erindi á fjölda ráðstefna innanlands og erlendis, stýrt greiningum og skrifað greinar um íslensk efnahagsmál í um 15 ár. Hún hefur verið skipuð í starfshópa á vegum stjórnvalda, þ.á.m um endurskoðun peningastefnunnar og verkefnahóp Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.

Ásdís er með BS gráðu í iðnaðarverkfræði og MS gráðu í hagfræði og hefur auk þess réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari.

Anna Hrefna Ingimundardóttir hefur víðtæka reynslu sem efnahagsgreinandi, bæði innanlands og erlendis. Hún hefur unnið við sérhæfðar fjárfestingar hjá Eldhrímni ehf. frá árinu 2018. Þar áður starfaði hún sem efnahagsgreinandi hjá greiningardeild Arion banka og sem lánastjóri á fyrirtækjasviði bankans. Áður starfaði Anna Hrefna við greiningar á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum. 

Anna Hrefna er með BA gráðu í hagfræði frá New York University og MA gráðu í hagfræði frá sama skóla. Hún hefur auk þess réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari.

Védís Hervör Árnadóttir kemur til Samtaka atvinnulífsins frá Viðskiptaráði Íslands þar sem hún starfaði sem samskipta- og miðlunarstjóri í fjögur ár.  Áður var hún markaðs- og kynningarstjóri hjá Raddlist og Vinun.

Védís Hervör hefur fjölbreytta reynslu af framleiðslu, rekstri og stefnumótun í frumkvöðlageiranum. Hún er einn stofnenda KÍTÓN, félags kvenna í tónlist á Íslandi og kvikmyndafyrirtækisins Freyja Filmwork. Þá er hún varaformaður Félags tónskálda og textahöfunda og varamaður í stjórn Leikfélags Reykjavíkur.

Védís Hervör er með alþjóðlega meistaragráðu í rekstri og stjórnun (MBA) frá HR, BA gráðu í mannfræði frá HÍ og diplóma í verkefnastjórnun. Þar áður nam hún upptökustjórn og hljóðblöndun í Point Blank London Music College.