Brottrekinn framkvæmdastjóri segir Sigríði Dögg ekki hafa hreinan skjöld í fjármálum

Sigríður Dögg Auðunsdóttir er sökuð um að hafa ekki hreinan skjöld í fjármálum.

„Ég tel for­mann­inn ekki starfi sínu vax­inn og ég tel held­ur ekki að fólk sem hef­ur ekki hrein­an skjöld í fjár­mál­um og gef­ur ekki skýr­ing­ar í þeim efn­um eigi að vera í for­svari fyr­ir fé­lag eins og Blaðamanna­fé­lag Íslands sem stend­ur fyr­ir gildi op­inn­ar og lýðræðis­legr­ar umræðu,” seg­ir Hjálmar Jónsson í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, en hann hefur verið rekinn sem framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands eftir harðvítug átök á bak við tjöldin í félaginu í kjölfar ásakana um skattalagabrot formanns félagsins, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, fréttamanns á RÚV.

Hjálmar er einn reyndasti blaðamaður landsins og hefur sinnt hagsmunagæslu blaðamanna um áratugaskeið. Hann hefur verið starfsmaður félagsins frá árinu 1989, framkvæmdastjóri sl. tuttugu ár og formaður lengst af, eða þar til 2021, að hann ákvað að láta af því embætti.

Tilkynnt er um starfslokin á vef Blaðamannafélagsins í frétt sem skrifuð er af formanninum sjálfum:

„Á undanförnum misserum hafa áherslur í starfsemi félagsins breyst og hefur stjórn unnið að endurskipulagningu á skrifstofu BÍ sem endurspeglar þessar breytingar. Hluti af fyrirhuguðum breytingum er ráðning nýs framkvæmdastjóra. Samhliða henni vildi stjórn bjóða núverandi framkvæmdastjóra nýtt starf innan félagsins. Markmið þess var að fá inn nýtt starfsfólk, með reynslu og þekkingu sem nýttist í þau verkefni sem stjórn hefur ákveðið að ráðast í. Um leið að tryggja að þekking og reynsla fráfarandi framkvæmdastjóra nýttist félagsmönnum, sem og stjórn og nýjum framkvæmdastjóra, þannig að tryggja mætti sem best vandaða yfirfærslu verkefna. 

Í því ferli hefur hins vegar orðið trúnaðarbrestur á milli stjórnar og framkvæmdastjóra sem stjórn telur að ekki verði leyst úr. Var það niðurstaða stjórnar að ekki væri lengra komist í samstarfi stjórnar og fráfarandi framkvæmdastjóra og að  nauðsynlegt væri að hann hætti störfum svo tryggja mætti viðunandi starfsskilyrði á skrifstofu félagsins. Þá geti stjórn ekki unnið áfram þau verkefni sem hún hefur sett sér í starfsáætlun við óbreyttar aðstæður.

Hjálmar Jónsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands. Skjáskot/press.is

Stjórn BÍ þakkar Hjálmari fyrir framlag hans í þágu blaðamennsku á Íslandi og baráttu hans fyrir kjara- og réttindamálum blaðamanna. Stjórn mun á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra félagsins, og mun formaður gegna fullu starfi á skrifstofu félagsins þar til gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra og hann tekinn til starfa.“

Í stjórn Blaðamannafélagsins eru: Formaður:  Sigríður Dögg Auðunsdóttir, RÚV, Aðalsteinn Kjartansson, Heimildinni, varaformaður, Stígur Helgason, RÚV, gjaldkeri, Lovísa Arnardóttir, ritari, Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, Morgunblaðinu, Bára Huld Beck, Heimildinni og Kristín Ólafsdóttir, Sýn.