„Núna er rétti tíminn til að opna nýja hluti og þörf fólks til þess að lyfta sér upp og gera sér glaðan dag er meiri nú en oft áður,“ segir athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson eða Simmi Vill í samtali við Viljann, en hann hefur ásamt viðskiptafélögum sínum keypt rekstur veitingastaðarins Bryggjan Brugghús á Grandanum og mun opna þar nýjan Barion-stað á næstu dögum.
Nýi staðurinn verður í anda Barion í Mosfellsbæ og er í reynd útibú frá þeim stað, að sögn Simma. Rekstur Bryggjunnar fór í þrot í vor og segir Simmi að nú sé aðeins beðið eftir veitingaleyfi til að opna aftur.
Nú þegar margt er í óefni í ferða- og veitingageiranum, vekur athygli að Simmi spilar sókn en ekki vörn. Hann opnar í næsta mánuði MiniGarðuinn í 1.850 fermetra húsnæði við Skútuvog 2 en þar verða tveir níu holu mínígolfvellir, sportbar og veitingastaðurinn Flavor.
„Þetta er rétti tíminn að opna ný og spennandi verkefni,“ segir Simmi glaðbeittur, en hann hefur auglýst eftir ríflega hundrað nýjum starfsmönnum á staðina tvo.