Bryndís skipuð ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu

Bryndís Hlöðversdóttir.

Ráðuneytisstjóraskipti verða í forsætisráðuneytinu frá með 1. janúar nk. þegar Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri, tekur við nýju embætti í utanríkisþjónustunni og Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari og fv. alþingismaður, kemur í hennar stað.

Ragnhildur mun undirbúa opnun nýrrar fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg og taka við embætti þar 1. júní nk. Ragnhildur mun auk hefðbundins fyrirsvars og skyldustarfa á þessum vettvangi byggja upp starfsemi fastanefndarinnar í Strassborg og vinna að undirbúningi formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem hefst árið 2022.

Við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu tekur Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, með vísan til heimildar í 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það þýðir með öðrum orðum, að hún er færð til í embætti innan ríkisins og því staða ráðuneytisstjóra ekki auglýst sérstaklega með því ráðningarferli sem slíku fylgir.

Bryndís er lögfræðingur að mennt og hefur gegnt embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2015. Áður var hún starfsmannastjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss og rektor við Háskólann á Bifröst. Þá gegndi Bryndís þingmennsku fyrir Alþýðubandalagið og Samfylkinguna á árunum 1995 til 2005. Hún var áður lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands og starfsmaður nefndar í dómsmálaráðuneytinu um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.

Ragnhildur hefur gegnt embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu í rúman áratug en var áður ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá árinu 2004 og fulltrúi í sendiráðinu Brussel frá 2002 til 2004. Hún starfaði í heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 1995 og á Alþingi frá árinu 1993.

Ráðherrar sem Ragnhildur hefur unnið með í þremur ráðuneytum eru á annan tuginn.