Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem boðað hafði fundaferð um landið í ágústmánuði til að ræða stefnu Sjálfstæðisflokksins og mögulega þörf á stofnun nýs flokks, hefur dregið í land, amk. í bili.
Á fésbókinni segir hann að Sjálfstæðisflokkurinn beri mikla ábyrgð á því hvernig komið er í stjórnmálaástandinu hér á landi. En hann eigi ennþá möguleika á því að rétta kúrsinn og gerast sá málsvari réttarríkis, lýðræðis og sjálfstæðis, sem honum er ætlað að vera.
„Fyrr í sumar hef ég boðað fundahöld um hvert flokkurinn stefnir. Nú styttist í flokksráðsfund XD sem haldinn verður 26.8. nk. Best fer á því að flokksmenn geti truflunarlaust ákvarðað þar næstu skref – og þar með örlög flokksins í bráð og lengd. Fundirnir sem ég hef áður boðað verða haldnir þegar sú stefna hefur verið mörkuð. Þá vitum við betur hvar við stöndum og getum rætt um fyrirliggjandi staðreyndir í stað þess að halda áfram að vara við vondum stefnumálum sem mögulega verða aflögð á flokksráðsfundinum,“ segir hann í yfirlýsingu sinni.
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman til fundar laugardaginn 26. ágúst 2023 á Hilton hótel Nordica.
Á vefsíðu flokksins segir að Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hafi það hlutverk að marka stjórnmálastefnu flokksins ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar.