Dagbjört ætlar tala röddu frjálslyndrar jafnaðarstefnu á Alþingi

Dagbjört Hákonardóttir tók sæti á Alþingi í dag í stað Helgu Völu Helgadóttur sem lét af þingmennsku í upphafi mánaðarins. „Þingflokkur Samfylkingarinnar þakkar Helgu Völu fyrir gott og óeigingjarnt starf á Alþingi á liðnum árum og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ segir í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Dagbjört hefur áður setið á þingi sem varaþingmaður, en hún skipaði þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður í alþingiskosningunum 2021. Dagbjört tekur sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og verður varamaður í velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Dagbjört er lögfræðingur og var persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar frá 2018 til 2023. Hún hefur verið virk í Samfylkingunni frá stofnun flokksins og meðal annars setið í stjórn Ungs jafnaðarfólks 2003-2006. Þá var hún formaður Ungra Evrópusinna 2011-2013 og er nú formaður FFJ félags frjálslyndra jafnaðarmanna.

„Nú sem aldrei fyrr kallar fólk eftir áherslum félagshyggjunnar við stjórn landsins. Ég geng stolt til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar og hlakka til að leggja mitt af mörkum við að tala röddu frjálslyndrar jafnaðarstefnu á Alþingi. Við leysum úr áskorunum í fjölskyldumálum með femíniskar áherslur að leiðarljósi, sem og á komandi kjaravetri. Alþingi þarf að styðja við samgöngubyltinguna og mannvænt skipulag með virkum samgönguháttum. Ég hef miklar væntingar til þingvetrarins, enda verk að vinna,“ segir Dagbjört.

Þingflokkur Samfylkingarinnar í alþingisgarðinum við þingsetningu í dag.