Dr. Þorsteinn Ingi bráðkvaddur: „Okkur öllum hans nánustu reiðarslag“

Dr. Þorsteinn Ingi hlaut rúss­nesku al­heimsorku­verðlaun­in, Global Energy Prize, 2007 fyr­ir fram­lag sitt til vetn­is­mála og tók við þeim úr hendi Pútíns Rússlandsforseta. Þau eru æðsta viðurkenning sem vísindamönnum getur hlotnast í Rússlandi.

„Elskulegur bróðir minn, Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, varð bráðkvaddur aðfaranótt 15. júlí s.l. Hann var nýorðinn 65 ára. Þetta er okkur öllum hans nánustu reiðarslag því ekkert benti til svo skjótra endaloka.“

Þannig hefst kveðja sem Árni Sigfússon, fv. borgarstjóri, skrifar á fésbókina í morgun, þar sem hann greinir frá andláti stóra bróður síns.

Þorsteinn Ingi fædd­ist í Vest­manna­eyj­um 4. júní 1954, son­ur hjón­anna Sig­fús­ar J. Johnsen, kenn­ara og fé­lags­mála­stjóra, og Krist­ín­ar S. Þor­steins­dótt­ur, hús­freyju og banka­starfs­manns.

Að loknu stúd­ents­prófi frá MH 1973 nam Þor­steinn Ingi eðlis­fræði og stærðfræði við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla 1973-78 og lauk doktors­prófi frá Cambridge-há­skóla á Englandi 1982. Þar hlaut hann verðlauna­styrk Clerk-Maxwell og var kjör­inn „Rese­arch Fellow“ við Darw­in Col­l­e­ge 1981.

Í andlátstilkynningu í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Þor­steinn Ingi fékk stöðu sem fræðimaður við Raun­vís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands (HÍ) 1983 og var pró­fess­or í eðlis­fræði við HÍ frá 1989. Hann var stjórn­ar­formaður Raun­vís­inda­stofn­un­ar 1986-90, formaður rann­sókn­ar­ráðs 1996-99 og formaður tækni­ráðs Rannís 2008-2013. Þor­steinn vann að teng­ingu fræðasam­fé­lags­ins við at­vinnu­lífið og tók þátt í stofn­un margra sprota­fyr­ir­tækja, t.d. Vaka-fisk­eldis­kerfa, Al-ál­vinnslu og Íslenskr­ar NýOrku. Hann var einnig formaður fram­kvæmda­nefnd­ar alþjóðavetn­is­sam­tak­anna (IPHE). Þor­steinn Ingi var ráðinn for­stjóri Ný­sköp­un­ar­miðstöðvar Íslands við stofn­un henn­ar 2007.

Hann var sæmd­ur ridd­ara­krossi fálka­orðunn­ar 2004 og hlaut rúss­nesku al­heimsorku­verðlaun­in, Global Energy Prize, 2007 fyr­ir fram­lag sitt til vetn­is­mála. Í fram­haldi af því stýrði hann stóru rann­sókn­ar­verk­efni við Tomsk-há­skóla.

Eft­ir Þor­stein Inga ligg­ur fjöldi ritrýndra vís­inda­greina auk annarra skrifa. Af­mæl­is­ritið „Þekk­ing­in beisluð – ný­sköp­un­ar­bók“ kom út í til­efni af sex­tugsaf­mæli hans árið 2014.

Sigfúsarbörn á góðri stundu ásamt Kristínu S. Þorsteinsdóttur móður sinni. Frá vinstri: Margrét, Árni, Gylfi, móðirin Kristín, Þorsteinn Ingi heitinn, Sif og Þór.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Þor­steins Inga er Bergþóra Kar­en Ket­ils­dótt­ir, for­stöðumaður. Þau eignuðust þrjú börn; Davíð Þór, lækni, f. 1980, Dagrúnu Ingu, lækni, f. 1988, og Þor­kel Vikt­or, tölv­un­ar­fræðing, f. 1992. Barna­börn­in eru þrjú.

„Við Þorsteinn Ingi, stóri bróðir, fylgdumst að frá barnæsku í Vestmannaeyjum, enda ekki nema tveggja ára aldursmunur. Uppfinningar hans litu snemma dagsins ljós og þá var gott að eiga áræðinn litla bróður sem var til í láta á reyna. Við vorum bestu vinir alla tíð. Gáfur hans og hjartahlýja voru mér dýrmætur stuðningur bernsku- og unglingsár rétt eins og fram á síðustu stundu,“ segir Árni Sigfússon ennfremur.

„Hér er ekki ætlunin að þylja hið mikla framlag sem bróðir minn lagði til samfélagsins, hvernig glíma hans var að beisla þekkinguna inn í atvinnusköpun, eða þylja þær opinberu viðurkenningar sem hann hlaut. Í mínum huga eru sterkari viðurkenningar fólgnar í áhrifum hans á fólk, á okkur hans nánustu, í börnum hans og ljósinu hans í lífinu, Beggu,“ bætir hann við.